Landsbankinn og spyr.is hafa gert með sér samstarfssamning sem felst í því að spyr.is miðlar áhugaverðum greinum frá bankanum á sérstöku fréttasvæði Landsbankans á spyr.is.  Almenningi mun þar gefast kostur á að spyrja bankann nánar um umfjöllunarefnið hverju sinni.  Spurningar sem fólk sendir til spyr.is eru aðeins birtar ef þær eru samþykktar af hálfu spyr.is.  Persónuauðkenni fyrirspyrjenda eru engum sýnileg en til að fá spurningu birta þarf hún að teljast málefnaleg og vera líkleg til að veita almenningi viðbótar upplýsingar við það sem áður hefur komið fram.  Landsbankinn svarar þeim spurningum sem spyr.is birtir og birtast svörin á vefnum.

Í tilkynningu frá Spyr er haft eftir Kristjáni Kristjánssyni, upplýsingafulltrúa Landsbankans, að spyr sé spennandi nýjung sem bankinn vilji taka þátt í að þróa. „Enda þótt hefðbundnir fjölmiðlar verði áfram mikilvægir er ljóst að nýir samskiptamiðlar munu fá aukið vægi í nánustu framtíð. Breytingar eru að verða á allri upplýsingamiðlun og fyrirtæki verða að bregðast við þeim eins og aðrir. Landsbankinn telur mikilvægt að efla opinskáa og málefnalega umræðu um efnahagsmál og fjármál einstaklinga og fyrirtækja. Fyrir um einu ári opnaði bankinn sérstakt vefsvæði á vef sínum sem ber heitið Umræðan (umraedan.landsbankinn.is). Samstarfið við spyr.is er því rökrétt skref fyrir Landsbankann.

Landsbankinn hefur áður en þetta var gert tekið þátt í að svara spurningum almennings í kjölfar fréttaflutnings um bankann, að sögn Rakel Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Spyr.is.