*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 2. nóvember 2020 17:44

Spyr sig hvar finna eigi 900 milljarða

Samanlagðar innistæður ríkissjóðs í gjaldeyrisforða, eignir í bönkunum, gjaldeyriskaup SÍ og fleira nema hallarekstri til 2025.

Ritstjórn
Jón Bjarki Benediktsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Jón Bjarki Benediktsson Aðalhagfræðingur Íslandsbanka hefur tekið saman hvernig ríkissjóður hyggist fjármagna 900 milljarða króna hallarekstur sem áætlaður er í fjármálaáætlun til ársins 2025 vegna ástandsins í hagkerfinu vegna kórónuveirufaraldursins.

Þannig telur hann saman að tvisvar 95 milljarðar komi frá gamla Íbúðalánasjóði, en síðan eigi ríkissjóður 220 milljarða í innistæðum í gjaldeyrisforða Seðlabankans og eignarhaldið í bönkunum sé svo reiknað að andvirði 340 milljarða.

Jafnframt hafi Seðlabankinn gefið út að hann muni kaupa ríkisskuldabréf fyrir allt að 150 milljarða króna með því sem í raun sé peningaprentun. Samanlagt gera þessar upphæðir einmitt um 900 milljónir króna.

Síðan sé skuldabréfaeign erlendra aðila mjög lág um þessar stundir en árið 2019 hafi hún verið mun hærri og numið andvirði 111 milljarða króna. Einnig hafi hærra hlutfall eigna lífeyrissjóða löngum verið bundið í ríkisskuldabréfum en nú sé það lægra en áratugum saman eða 6,3%. Sömuleiðis hafi þeir áður átt meira í íbúðabréfum en nú.

Hlutfall skulda helmingaðist á áratug

Í greinarkorni um málið á vef bankans ber hann einnig saman skuldastöðu Íslands, sem hafi helmingast úr 85% af vergri landsframleiðslu í 37% á síðasta ártug við önnur vesturlönd uppúr nýbyrtu hagtölusafni AGS.

Til að mynda hafi skuldir Þýskalands numið 60% af VFL, 85% af VLF í Bretlandi, 98% af VLF í Frakklandi og 109% af VLF í Bandaríkjunum. Þó staða hinna Norðurlandanna hafi sömuleiðis verið sterk hafi Ísland verið eitt um að lækka skuldahlutfall sitt í aðdraganda kreppunnar nú.

Sem dæmi um hvernig fjármagna eigi hallann bendir Jón Bjarki á eins og áður segir að ríkissjóðir hafi þegar ákveðið að á þessu ári og næsta verði 95 milljarðar hvort ár teknir úr ÍL-sjóði sem heldur utan um eignir gamla Íbúðalánasjóðs, en íbúðabréf sjóðsins sem ríkið sjálft rekur eru að flestu leyti ígildi ríkisskuldabréfa hvort sem er.

Önnur ríkisstofnun, Seðlabankinn, hafi svo lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að kaupa ríkisbréf fyrir allt að 150 milljarða króna, sem ef nýtt jafngildir að hann leggi ríkissjóði til sjöttu hverja krónu í nýrri fjármögnun næstu fimm árin, með því sem í raun sé óbein peningaprentun.

Í samanburði við önnur ríki sé þó peningaprentunin hér á landi lítil meðan mörg ríki hafi aldrei sagt skilið við peningaprentunarhrinuna sem hófst eftir fjármálakreppuna fyrir 12 árum síðan og önnur hafið hana í stórum stíl, meðan Seðlabankinn hafi enn sem komið er einungis keypt fyrir 1 milljarð króna.

Lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestar með óvenjulítið af ríkisskuldum

Síðan nefnir Jón Bjarki vasa lífeyrissjóðanna, en hlutfall ríkisskuldabréfa af eignum þeirra er nú 6,3% sem er það lægsta sem það hefur verið í áratugi, og sama eigi við um eignir þeirra í íbúðabréfum. Í heildina haldi þeir í dag á 345 milljörðum í ríkisbréfum sem sé í raun óbreytt krónutöluupphæð og frá árinu 2017, meðan eignir þeirra hafi aukist um 1.900 milljarða síðan þá.

Annar möguleiki fyrir lífeyrissjóðina til fjármögnunar á verkefnum til að jafna út sveifluna í hagkerfinu nú vegna faraldursins nefnir Jón Bjarki einnig beina verkefnafjármögnun um stórverkefni eins og Sundabraut eða aðrar innviðaframkvæmdir.

Síðan hafi innlendir verðbréfasjóðir átt 134 milljarða króna í ríkisskuldabréfum og víxlum í ársbyrjun, og gerir hann ráð fyrir að þeir taki einhvern þátt í fjármögnuninni þó þeir verði ef til vill ekki í lykilhlutverki.

Jafnframt sé spurning með hvort erlent fjármagn komi til og hvernig, en það gæti gerst með kaupum á skuldabréfum í krónum, sem og í erlendri mynt, eða með lánveitingum fjölþjóðlegra lánastofnana, og telur hann heppilegast að sótt yrði fé til allra þriggja aðilanna að einhverju marki.

Nú virðist hins vegar eign erlendra aðila í ríkisbréfum í krónum vera með minnsta móti, en þeir hljóðuðu upp á 72 milljarða í ágústlok en síðan hafa borist fréttir um að stór erlendur aðili hafi selt allt sitt í krónum. Til marks um að erlendir aðilar hafi löngum verið umsvifameiri nefnir hann að í ársbyrjun 2019 hafi erlendir aðilar átt 111 milljarða króna í ríkisskuldabréfum.

Telur hann það hljóta að vera kostur fyrir erlenda aðila að fjárfesta í krónu að bæði séu vextir hér hærri en víða, sums staðar séu þeir jafnvel neikvæðir, sem og að krónan eigi inni talsverða styrkingu þegar ferðaþjónustan nái vopnum sínum á ný.

Hins vegar séu líka horft til útgáfu ríkisbréfa í erlendri mynt, en eftir að slík útgáfa síðustu ára hafi einungis farið í gjaldeyrisforða Seðlabankans eigi ríkissjóður nú 220 milljarða í innistæðum í þeim sjóði.

Loks nefnir Jón Bjarki mögulega eignastöðu, og segir hann það geta verið heppilegt nú í stað þess að fjármagna hallann alfarið með nýrri lántöku. Þannig geti salan á bönkunum, líkt og bent er á að sé heppileg á seinni hluta áætlunartímabils fjármálaáætlunarinnar, skilað 340 milljörðum króna, miðað við bókfært virði þeirra í ríkisreikningi á síðasta ári.