Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur sent fyrirspurn á Alþingi til fjármálaráðherra um eignarhald ríkisins á fyrirtækjum. Þar spyr Eygló meðal annars hvort mörkuð verði almenn eigendastefna og hvaða fyrirtæki ráðherra telji rétt að einkavæða.

Viðskiptablaðið greindi í síðustu viku frá því að á árunum 2012 til 2015 ætla stjórnvöld að afla alls 31 milljarðs króna með sölu eigna. Þar af á að afla sjö milljarða í ár. Fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins eru meðal þeirra eigna sem litið er til. Þau heyra undir Bankasýslu ríkisins. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, sá sér ekki fært að svara Viðskiptablaðinu um málið.