Er ríkissjóður með húsnæði á leigu þar sem leigufjárhæðin er bundin erlendri mynt að hluta eða öllu leyti? Álfheiður Ingadóttir, þingkona VG, hefur beint til fjármálaráðherra þessari spurningu um húsaleigusamninga ríkisins og ríkisstofnana.

Hún vill fá upplýst hversu margir slíkir samningar eru í gildi nú, hver var samanlögð fjárhæð þeirra á mánuði 1. nóvember sl. og hversu stór hluti er háður gengi erlendra gjaldmiðla.

Einnig spyr hún m.a. hve margir gengistryggðir leigusamningar hafa verið gerðir frá 1. júlí 2007. Þá er spurt til hversu langs tíma samið hefur verið og um uppsagnarákvæði þeirra og hvort til standi að láta endurskoða eða segja upp gengistryggðum húsaleigusamningum ríkisins.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, mun leggja fram skriflegt svar við fyrirspurninni á Alþingi á næstu vikum.