Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra um sérstaka dreifingu á upplýsingum úr álagningarskrám.

Sigríður tók nýlega sæt á Alþingi og spyr ráðherra að því hvort skattstjóra sé heimilt án sérstakrar lagaheimildar að gera og birta opinberlega lista yfir annars vegar þá einstaklinga og hins vegar þá lögaðila sem hæstir skattar hafa verið lagðir á samkvæmt álagningarskrám hvers árs. Sem kunnugt er hefur skattstjóri, að eigin frumkvæði, útbúið slíka lista og sent fjölmiðlum síðustu ár þegar álagningarskrár liggja fyrir.

Þá spyr Sigríður einnig að því hvort slík heimild sé fyrir hendi í gildandi lögum og þá hvar.

„Tilefnið að fyrirspurninni er sá háttur sem skattstjórar hafa haft undanfarin ár, og ríkisskattstjóri virðist hafa tileinkað sér eftir að landið var get að einu skattumdæmi, að matreiða svokallaðan hákarlalista fyrir fjölmiðla,“ segir Sigríður í samtali við Viðskiptablaðið aðspurð um fyrrnefnda fyrirspurn.

„Hér er um að ræða lista yfir þá einstaklinga og lögaðila sem hæstu opinberu gjöldin hafa verið lögð á í ágúst ár hvert.  Ég hef velt því fyrir mér hvort að skattstjórar hafi með þessum vinnubrögðum farið út fyrir þær heimildir sem þeir hafa stöðu sinnar vegna.“