Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, hefur lagt fram á Alþingi skriflega fyrirspurn til forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, um samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands.

Steingrímur spyr meðal annars að því hvort það sé rétt að ríkisstjórnin hafi fyrir nokkrum mánuðum hafnað eða ekkert gert með beiðni frá Seðlabankanum um að auka gjaldeyrisvaraforða hans.

„Hvernig hefur samskiptum ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra, viðskiptaráðherra eða eftir atvikum annarra ráðherra og Seðlabankans verið háttað undanfarna mánuði?," spyr Steingrímur einnig.

Miðað er við að fyrirspurninni verði svarað í næsta fyrirspurnartíma á Alþingi. Það er þó ekki fyrr en í lok apríl.