*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 21. október 2014 12:55

Spyr um þróun verðtryggðra lánveitinga

Þingmaður Samfylkingarinnar segir ekkert bóla á áformum ríkisstjórnarinnar um afnám verðtryggingar.

Ritstjórn
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til fjármálaráðherra um verðtryggð og óverðtryggð húsnæðislán. Sigríður segir að ekkert bóli á áformum ríkisstjórnarinnar um afnám verðtryggingar og því sé áhugavert að sjá hvort dregið hafi úr verðtryggðum lánveitingum til heimilanna eftir að ný ríkisstjórn tók við.

Í fyrirspurn sinni spyr hún fjármálaráðherra hversu mörg verðtryggð húsnæðislán hafi Íbúðalánasjóður, bankar og lífeyrissjóðir veitt árlega frá 1. janúar árið 2009, annars vegar lán til 40 ára og hins vegar til 25 ára, og hver fjárhæð þeirra sé. Einnig beinir hún sömu spurningu að ráðherranum varðandi óverðtryggð húsnæðislán. Þá vill hún einnig vita hversu mörgun húsnæðislánum hafi verið breytt úr verðtryggðnum í óverðtryggð á tímabilinu.

Spyr hún að lokum hvort ráðherra telji að þróun húsnæðismarkaðar sé í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að afnema verðtryggingu húsnæðislána, og til hvaða ráðstafana ráðherra ætli að grípa til að auðvelda þeim sem þegar hafi verðtryggð lán að skipta yfir í óverðtryggð lán.