*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 24. október 2014 10:32

Spyr um útboð á farmiðakaupum ríkisins

Félag atvinnurekenda hefur óskað upplýsinga frá Ríkiskaupum um útboð á farmiðakaupum ríkisins í millilandaflugi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félag atvinnurekenda hefur skrifað Ríkiskaupum bréf og óskað upplýsinga um stöðu áforma um að bjóða út farmiðakaup ríkisins í millilandaflugi á nýjan leik. Þetta kemur fram á vef félagsins.

Árið 2012 sögðu Ríkiskaup upp rammasamningi við Icelandair og Iceland Express um flugsæti til og frá Íslandi. Sögðu Ríkiskaup þá að útboð með flugsætum til og frá landinu hefðu ekki skilað tilætluðum árangri og hafinn væri undirbúningur á nýju útboði. Kærunefnd útboðsmála hafði þá jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á Iceland Express með gerð samninga ríkisins við Icelandair um utanlandsferðir ríkisstarfsmanna.

Félag atvinnurekenda segir að ekkert hafi frést af útboði Ríkiskaupa þrátt fyrir að þau hefðu sagst ætla að bjóða farmiðakaupin út á nýjan leik. Flest bendi til að ríkið kaupi langstærstan hluta flugmiða vegna utanlandsferða ríkisins af Icelandair án útboðs eða samnings um afslætti. Með því sé farið illa með skattfé og keppinautum í millilandaflugi mismunað.