*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 20. janúar 2015 17:22

Spyr út í störf fjölmiðlanefndar

Þingmaður Framsóknarflokksins spyr ráðherra hvort fjölmiðlanefnd hafi óskað eftir upplýsingum frá DV og 365 miðlum.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur sent fyrirspurn til Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra. Spyr þingmaðurinn nokkuð ítarlega út í störf fjölmiðlanefndar og óskar eftir upplýsingum um hlutverk nefndarinnar, sem og endurskoðun laga um fjölmiðla.

Á meðal þess sem Willum Þór spyr um er hvort fjölmiðlanefnd hafi óskað eftir upplýsingum um meint afskipti útgefanda 365 miðla af fréttaflutningi á Vísi. Einnig spyr hann hvort nefndin hafi kallað eftir upplýsingum um viðskipti og breytingar á eignarhaldi DV. Enn fremur spyr hann hvort nefndin hafi greint möguleg áhrif viðskiptanna á ritstjórnarlegt frelsi fjölmiðilsins.

Fyrirspurn Willums Þórs er í tíu liðum eins og sjá má hér að neðan:

  1. Hvers vegna taldi fjölmiðlanefnd ekki ástæðu til að kalla eftir upplýsingum frá 365 miðlum um breytingar á eignarhaldi um leið og breytingarnar lágu fyrir og hvers vegna snerist nefndinni síðar meir hugur og kallaði eftir upplýsingum?
  2. Hversu oft kallaði fjölmiðlanefnd árin 2011–2014 eftir upplýsingum og gögnum um starfsemi fjölmiðla og eftir hvaða upplýsingum var þá kallað?
  3. Hvernig vinnur nefndin að því að sinna starfsskyldum sínum, sem skv. 10. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, eru að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum og að standa vörð um tjáningarfrelsið?
  4. Hvernig túlkar nefndin rétt almennings til upplýsinga og hvernig sinnir nefndin varðstöðu sinni um þann rétt?
  5. Starfar fjölmiðlanefnd að því að kortleggja fjölmiðlamarkaðinn, fylgjast með stöðu og þróun og safna upplýsingum þar að lútandi? Safnar fjölmiðlanefnd og vinnur úr upplýsingum um aldursdreifingu, kynjahlutföll, menntunardreifingu og menntunarstig notenda fjölmiðlanna, eða öðrum viðeigandi upplýsingum?
  6.  Óskaði nefndin eftir upplýsingum um meint afskipti útgefanda 365 miðla, starfandi í umboði eigenda, af fréttaflutningi á fjölmiðlaveitunni Vísi sem ritstjórar töldu brjóta í bága við ritstjórnarreglur miðilsins og lög um fjölmiðla? Ef ekki, hvers vegna ekki? Ef upplýsinga var óskað hjá fjölmiðlaveitunni, hvers vegna heyrðist ekkert opinberlega frá nefndinni um málið?
  7.  Hefur fjölmiðlanefnd kallað eftir upplýsingum um viðskipti og breytingar á eignarhaldi DV og greint möguleg áhrif á ritstjórnarlegt frelsi fjölmiðilsins?
  8.  Hvernig tryggir fjölmiðlanefnd jafnræði og gagnsæi gagnvart aðilum sem leita réttar síns hjá nefndinni vegna ágreinings við Blaðamannfélag Íslands þar sem félagið á fulltrúa í nefndinni?
  9. Hversu margar kvartanir hafa borist fjölmiðlanefnd skv. 11. gr. laga um fjölmiðla og hversu margar hafa verið afgreiddar með áliti?
  10. Hver er staðan á endurskoðun á lögum um fjölmiðla sem er kveðið er á um í lögunum að skuli fara fram innan þriggja ára frá setningu þeirra? Stendur til að fara í þá vinnu ef hún er ekki þegar hafin?