Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu að erfitt sé að sjá fyrir þróun krónunnar um þessar mundir. Markaðsöflin hafa að stórum hluta verið tekin úr sambandi með gjaldeyrishöftunum.

Í Morgunkorni er bent á að höftin kippa áhrifavöldum fjármagnsflæðis úr sambandi við gengi krónunnar og það ræðst fyrst og fremst af vöru- og þjónustuviðskiptum að viðbættum vaxtagreiðslum.

„Reikna má með því að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum hafi stutt við gengi krónunnar á undanförnum mánuðum og að svo verði áfram á næstunni. Nokkur töf getur hins vegar verið á því að sá afgangur skili sterkari krónu en ætla má að bankahrunið hafi haft þau áhrif að greiðslufrestir útflutningsfyrirtækja hafi lengst og greiðslufrestir innflutningsfyrirtækja styst. Á móti styrkingaráhrifum afgangsins á vöru- og þjónustuviðskipum á gengi krónunnar vegur að vaxtagreiðslur til útlanda hafa verið umtalsverðar enda erlendar skuldir þjóðarbúsins töluverðar," segir í Morgunkorninu.

Þar er bent á að vísbendingar séu um að gjaldeyrir hafi hingað til ekki skilað sér með þeim hætti sem reglur kveða á um. Veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyri hefur þannig verið afar lítil. Heildarveltan í janúar síðastliðnum var þannig einungis tæpir 4 milljarðar kr. samanborið við 645 milljarða kr. í janúar í fyrra.

Ríflega þriðjung veltunnar í janúar átti Seðlabankinn en hann hefur allt frá hruni bankanna beitt gjaldeyrisinngripum með það að markmiði að styrkja krónuna.

Sjá nánar Morgunkorn Glitnis.