Í nýjasta fréttabréfi Júpíters rekstrarfélags er spurt hvaða þjóðfélagshópur eða eignaflokkur verði andlag gjöreyðingar eða tortímingar Seðlabanka Íslands. Þar er fjallað um þá ákvörðun bankans að tvöfalda regluleg gjaldeyriskaup.

„Fræg eru orð Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, að hlutverk Seðlabankans væri að lokka andstæðinga sína út á sléttuna og gjöreyða þeim – að hætti mongólska herhöfðingjans Genghis Khan. Vísaði bankastjórinn þar til þess að ekki væri tækt að verja gengi krónunnar gegn fyrirfram ákveðnu lágmarki. Nú virðist hins vegar sem Seðlabankanum hugnist ekki sú styrking krónunnar sem átt hefur stað á síðastliðnum mánuðum. Af ofangreindum ástæðum er sú afstaða skiljanleg. Þá er stóra spurningin hvaða þjóðfélagshópur eða eignaflokkur verður nú andlag gjöreyðingar og/eða tortímingar Seðlabankans. Sé ætlunin að veikja krónunnar verulega eftir styrkingu síðastliðinna vikna, má ætla að helsta fórnarlambið verði eiginfjárgrunnur íslenskra fasteignaeigenda, sem velflestir skulda sinni fjármálastofnun verðtryggt lán,“ segir í fréttabréfinu.

Þá segir að ástæða gjaldeyriskaupanna sé vafalítið sú að gengi krónunnar hafi styrkst mikið á síðustu vikum, með innflæði erlends gjaldeyris á háannatíma ferðamannatímabilsins. Hins vegar sé það ótækt að viðskiptajöfnuður Íslands sé neikvæður líkt og í dag.

„Fari svo að gengi krónunnar styrkist frekar (krónan hefur styrkst um um það bil 10% gagnvart evru frá páskum) er einsýnt að innflutningur og eyðsla Íslendinga erlendis mun færast í aukana. Gjaldeyrisþörf þjóðarbúsins á næstu árum er æpandi mikil, en tilvist gjaldeyrishaftanna er óræk sönnun þeirrar staðreyndar.“

Fréttabréf Júpíters .