Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) lagði í lok síðasta mánaðar fram tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu að fjárhæð 5,5 milljarðar króna. Það samsvarar 2,0% af eigin fé í árslok 2022 og 70% af hagnaði síðasta árs.

Stjórnarmennirnir Þórður Gunnarsson og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, sem er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórninni, hafa sett spurningarmerki við arðgreiðsluna og leggja til að stjórnin taki til umræðu að falla frá arðgreiðslu vegna síðasta rekstrarárs, að því er kemur fram í fundargerð stjórnar.

„Vextir og verðbólga hafa hækkað skarpt frá miðju ári 2022 og fjármagnskostnaður OR í takt við það, líkt og þegar mátti lesa úr árshlutauppgjörum fyrirtækisins fyrir annan og þriðja ársfjórðung 2022,“ segja Ragnhildur Alda og Þórður.

„Á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2023 hefur verðbólga tekið að hækka á ný, með fyrirséðum áhrifum á verðtryggðar skuldbindingar á Íslandi. Árstaktur vísitölu neysluverðs án húsnæðis fer hratt hækkandi og mældist tæplega 9% í febrúar, sem gefur sterklega til kynna að verðbólga á Íslandi er nú á breiðari grunni en á árinu 2022, sem eykur aftur líkur á því að verðbólga verði þrálátari en vonir flestra stóðu til.“

Þau bæta einnig við að mikil óvissa sé í alþjóðlegum efnahagsmálum, þar á meðal þegar kemur að verðþróun á hrávörumörkuðum sem áhrif hafa á afkomu OR.

„Í ljósi ofangreinds og með tilliti til fjárfestingaáforma OR á árunum 2023-2027 sem og endurgreiðsluferils skulda OR á árinu 2023 (samanber fjárhagsspá OR sem var samþykkt af stjórn OR 3.október 2022) er því umhugsunarefni fyrir stjórnarmenn OR hvort skynsamlegt sé að samþykkja arðgreiðslu til eigenda að svo komnu.“

Þau leggja til að stjórnin taki til umræðu og umfjöllunar að falla frá arðgreiðslu til eigenda vegna rekstrarársins 2022. Til vara leggja þau til að stjórn fresti ákvörðun um arðgreiðslu „þar til framvinda efnahagsmála hefur tekið á sig skýrari mynd“.

Fyrirhugað er að endanleg ákvörðun um arðgreiðsluna verði tekin á aukafundi stjórnar OR á fimmtudaginn.