Félag atvinnurekenda hefur skrifað Ólöfu Nordal innanríkisráðherra bréf þar sem er spurt hvað hún hafi gert til að bregðast við áliti Samkeppniseftirlitsins frá því í október sl.

Í því áliti hafði Samkeppniseftirlitið fjallað um úthlutanir á brottfarartímum á Keflavíkurflugvelli. Eftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag úthlutunar á afgreiðslutíma á vellinum raskaði samkeppni. Samkvæmt áliti Samkeppniseftirlitsins þá var því beint til ráðherra að hún myndi beita sér fyrir „tafarlausum aðgerðum sem miði að því að draga úr þeim samkeppnishindrunum sem skilgreindar hafa verið í áliti þessu. Við þær aðgerðir verði hagsmunum almennings af virkri samkeppni í áætlunarflugi gefinn forgangur.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA segir að félagið telji það brýnt að stjórnvöld beiti sér til að tryggja virka samkeppni á flugmarkaði en hann segir stutt síðan að Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hvatt íslensk stjórnvöld til að ganga harðar fram til að tryggja virka samkeppni og styðja betur við samkeppnisyfirvöld; en sérstaklega var þar bent á úthlutun brottfarartíma.

Félag atvinnurekenda spyr ráðuneytið því:

  • Hefur ráðherra beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr samkeppnishindrunum við úthlutun brottfarartíma á Keflavíkurflugvelli?
  • Ef svo er, til hvaða aðgerða?
  • Ef ekki, hvers vegna ekki?