*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 27. mars 2020 08:12

Spyrnt á móti skriðunni

Farið yfir allar þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið vegna kórónuveirunnar.

Trausti Hafliðason
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í Hörpu laugardaginn 21. mars.
Eva Björk Ægisdóttir

Bæði ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa á síðustu tveimur vikum kynnt ýmsar aðgerðir vegna heimsfaraldursins sem nú geisar. Einnig hafa fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir veitt greiðslufresti á lánum og enn fremur koma þau að svokölluðum brúarlánum og úttekt séreignarsparnaðar. Sveitarfélög landsins eru flest enn að vinna að sínum tillögum en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur beint því til sveitarfélaga að hrinda í framkvæmd eins og kostur er aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf. Hér er farið yfir það sem þegar hefur verið kynnt.

Viðspyrna ríkisstjórnarinnar

Formenn ríkisstjórnarflokkanna boðuðu til fundar á laugardaginn 21. mars í Norðurljósasal Hörpu. Þar voru kynntar aðgerðir sem nefndar eru Viðspyrna fyrir Ísland: Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19. Aðgerðirnar eru í tíu liðum og flokkaðar eftir því hvort um er að ræða varnaraðgerð, verndaraðgerð eða viðspyrnu. Umfang aðgerðanna er metið á 234-237 milljarða króna, sem er 7,8% af vergri landsframleiðslu. Beinn kostnaður ríkissjóðs af aðgerðunum nemur um 70 milljörðum króna.  

1. Hlutastarfaleiðin

Hér er ríkið að koma til móts við atvinnurekendur með því greiða hluta af launum starfsmanna. Vinnumálastofnun mun greiða tímabundnar atvinnuleysisbætur fyrir þá sem lækka niður í 25-80% starfshlutfall. Með öðrum orðum þá greiða stjórnvöld allt að 75% launa. Útfærslan er þannig að starfsmaður heldur fullum launum upp að 400 þúsund krónum og fær eftir það greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í hlutfalli við hið skerta starfshlutfall en þó að hámarki 90% af launum upp að 700 þúsund krónum. Er atvinnurekanda óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað. Gildistími úrræðisins er frá 15. mars til 1. júní. Gert er ráð fyrir 22 milljörðum króna í atvinnuleysistryggingasjóð vegna úrræðisins, sem verður endurmetið í byrjun júní. 

2. Brúarlán til atvinnulífs

Ríkissjóður mun gangast í ábyrgðir vegna brúarlána til fyrirtækja í rekstrarvanda. Skiptingin er þannig að ríkissjóður ábyrgist 50% lánsfjárhæðarinnar en viðskiptabankinn 50%. Kostnaður vegna mögulegs útlánataps mun því skiptast í jöfnum hlutföllum á milli ríkissjóðs og viðskiptabanka. Nær þessi ábyrgð til nýrra útlána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40% tekjumissi. Hámarkslánsfjárhæð nemur tvöföldum árslaunakostnaði og þarf launakostnaður að vera hið minnsta 25% af útgjöldum. Heimilt verður að skilyrða ráðstöfun lánsfjárhæðarinnar. Nemur heimildin samtals 35 milljörðum króna, sem jafngildir að hægt verður að veita í heildina brúarlán fyrir 70 milljarða króna. Til þess að auka svigrúm viðskiptabankanna verður þrepalækkun bankaskatts flýtt. Skattprósentan er nú 0,376% en hlutfallið fer niður í 0,145% strax á næsta ári í staðinn fyrir árið 2024 eins og áður var gert ráð fyrir. Með því að flýta lækkun skattsins verður ríkissjóður af 10,6 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.