*

laugardagur, 4. desember 2021
Erlent 18. október 2021 10:21

Squid Game fyllir kistur Netflix

Steymisveitan áætlar að fyrsta þáttaröð Squid Game muni skila inn 891 milljón dala en framleiðslan kostaði 21,4 milljónir dala.

Ritstjórn
epa

Netflix áætlar að hinir vinsælu kóresku sjónvarpsþættir Squid Game muni geta af sér 891 milljónir dala, eða sem nemur 115 milljörðum króna, í gegnum líftíma sinn, samkvæmt heimildum Bloomberg. Nánar tiltekið nær þessi fjárhæð einungis yfir fyrstu þáttaröðina. Framleiðslukostnaður þáttanna níu nemur 21,4 milljónum dala, eða um 2,8 milljarða.

Netflix horfir til ólíkra matsaðferða en hefðbundin framleiðslufyrirtæki þar sem streymisveitan aflar ekki tekna í gegnum sölu á einstaka myndum eða þáttum heldur laðar að áhorfendur með kvikmyndasafni sínu. Streymisveitan greinir í stað gögn um áhorf til að áætla virði einstaka kvikmyndir og þætti.

Kóresku þættirnir, sem fjalla um stórskuldugt fólk sem tekur þátt í keppnum upp á líf og dauða í von um að fá svimandi háar fjárhæðir í verðlaun. Um 132 milljónir manns horfðu á Squid Game á fyrstu 23 dögunum frá því að þeir fóru í loftið. Þættir slógu þar með fyrra met Bridgerton.

Streymisveitan áætlar að 89% af áhorfendum sem byrjuðu að horfa á Squid Game hafi í það minnsta horft á 75 mínútur, þ.e. meira en einn þátt, og 66% áhorfenda kláruðu þáttaröðina á fyrstu 23 dögunum frá útgáfu.

Áhorfstölurnar kunna að gleðja hluthafa streymisveitunnar en fyrirtækið tilkynnti um hægustu fjölgun áskrifenda við hálfsársuppgjör. Netflix skellti sökinni meðal annars á áhrif kórónuveirufaraldursins á framleiðslu myndefnis.  

Hlutabréf Netflix hafa nú hækkað um 6,6% frá því að Squid Game var sett í loftið þann 17. september síðastliðinn.

Stikkorð: Netflix Squid Game