Mahinda Rajapaksa, forseti Sri Lanka segir að ríkisstjórn landsins muni ekki gangast undir þá skilmála sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur sett við lánveitingu til landsins.

„Við ætlum ekki að veðsetja eða selja móðurlandið til að fá lán frá öðrum,“ sagði Rajapaksa í samtali vði fjölmiðla í morgun en ríkisstjórn Sri Lanka á nú í viðræðum við AGS um 1,9 milljarða dala lánsveitingu frá sjóðnum.

Eins og kunnugt er setur AGS skilmála við lánveitingar sínar sem ekki alltaf falla þeim ríkisstjórnum sem þær þiggja í geð. Það á augljóslega við í þessu tilfelli þar sem ríkisstjórn Sri Lanka virðist ætla að sýna AGS fulla hörku í samningaviðræðum.

„Við munum hvorki gefa okkur undir þessi skilyrði né gera landið að nýlendu,“ sagði Rajapaksa við fjölmiðla í Sri Lanka.

Útflutningur hefur minnkað verulega í Sri Lanka, þá helst á te og textíl vörum en nánast allur gjaldeyrisforði landsins er nú uppþurinn að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þá þarf landið á aukafjármagni að halda til að hefja enduruppbyggingu í norður og austurhluta landsins eftir stríðsátök við Tamil tígra síðustu árin.

Stjórn seðlabankans á Sri Lanka telur að lán frá AGS muni auka trúverðugleika landsins á ný og laða að erlenda fjárfesta. Búist er við því að umræðum milli ríkisstjórnarinnar og AGS ljúki í lok mánaðarins, þ.e.a.s. ef Rajapaksa forseti er tilbúinn að gangast undir skilmála sjóðsins.