Tæplega 100 milljóna króna tap varð af rekstri Sláturfélags Suðurlands á fyrstu 6 mánuðum ársins samanborið við 60 milljóna króna tap í fyrra. Tapið gefur þó ekki góða mynd af þróun afkomunnar því að 2 milljóna króna hagnaður varð á öðrum ársfjórðungi ársins.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að verri afkoma fyrstu sex mánaða miðað við árið í fyrra skýrist fyrst og fremst af afkomu dótturfélaga sem nú eru hluti af samstæðuuppgjöri. Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 2.052 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins 2004, en 1.567 milljónir á sama tíma árið áður. Velta samstæðunnar jókst því um 31%, og er aukningin að mestu til kominn vegna innkomu dótturfélaga í samstæðuuppgjörið.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 1.995 milljónum á fyrri hluta ársins 2004 samanborið við 1.510 milljónir árið áður og jukust um rúm 32%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 118 milljónir og aukast um 55%. Rekstrartap án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 61 milljón, en 19 milljónir króna árið áður.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að afkoma félagsins á fyrri helmingi ársins var óviðunandi og einkenndist einkum af slakri afkomu dótturfélaga. Afkoma Sláturfélagsins hefur jafnan verið þyngst framan af árinu en best á síðasta ársfjórðungi. Þetta stafar m.a. af afkomu afurðadeildar en umsvif hennar aukast við haustslátrun sauðfjár. Kjötmarkaðurinn er nú farinn að færast hægt í átt að auknu jafnvægi sem á að leiða til betri afkomu í rekstri félagsins á síðari árshelmingi.