Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands (SS) á árinu 2008 var 1.555 milljónir króna samanborið við hagnað upp á 132,7 milljónir króna árið áður.

Neikvæð breyting í afkomu milli ára stafar fyrst og fremst af gengistapi erlendra lána samstæðunnar og háu vaxtastigi.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu SS en þar kemur fram að eigið fé félagsins er 1.005 milljónir króna og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 16%.

Rekstrartekjur SS voru 6.605 milljónir króna árið 2008, en 5.472 milljónir króna árið áður og hækka því um 20,7%. Aðrar tekjur voru 78 milljónir króna en 34 milljónir árið áður.

Í tilkynningunni kemur fram að hækkun rekstrartekna umfram verðlagsbreytingar skýrist af magnaukningu í kjötsölu og tilbúnum áburði.

Þá var veltufé frá rekstri 344 milljónir króna árið 2008, samanborið við 338 milljónir árið 2007.

Segja félagið standa af sér núverandi þrengingar

Í tilkynningu félagsins segir að eitt erfiðasta rekstrarár í rúmri 100 ára sögu félagsins sé að baki.

„Traustar grunnstoðir rekstrarins og sterk eiginfjárstaða SS veldur því að félagið stendur af sér þær efnahagslegu þrengingar sem nú ganga yfir,“ segir í tilkynningunni.

„Rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur verið afar óhagstætt, mikil verðbólga, hátt vaxtastig og neikvæð gengisþróun krónunnar og framundan er mikill samdráttur í einkaneyslu samfara auknu atvinnuleysi. Við styrkingu gengis, lækkun verðbólgu og lækkun vaxta mun SS bæta verulega rekstrarafkomu á árinu 2009.“

Þá kemur fram að SS hefur nú þegar brugðist við breyttum aðstæðum með því að bjóða vörur sem falla betur að breyttu neyslumunstri landsmanna. Kjötiðnaður félagsins sé vel í stakk búinn til að takast á við þær aðstæður sem framundan eru.

Sjá nánar um uppgjör félagsins á vef SS.