Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands (SS) segir að  ekkert verði af frekari slátrun hjá félaginu í bili með svokallaðri Halal aðferð múslima vegna mikillar andstöðu.

„Það komu fram viðbrögð sem menn áttu ekki alveg von á. Við erum búnir að stöðva þessa framkvæmd. Þetta var aldrei hugsað nema fyrir útflutningsmarkaði og ekki fyrir innanlandsmarkað."

Verður aðskilið annarri slátrun

Steinþór segir að það eigi eftir að koma í ljós hversu miklu máli það skiptir að slátra ekki með þessari aðferð þar sem engin sala á þessu kjöti hafi verið fyrirliggjandi.

„Ef okkur tekst að ná einhverjum samningum um kjötsölu til þessara múslimalanda þá munum við bara slátra að hámarki fyrir það með þessari aðferð en að öðru leyti ekki. Þá munum við afmarka slátrun fyrir það.”

Segir Steinþór að SS muni annars flytji út um 500 tonn af kindakjöti á nýbyrjuðu kvótaári. Í heild eru flutt út nærri 3.000 tonn af íslensku kindakjöti árlega eða um 30% af framleiðslunni.

Spennandi tækifæri

Bændablaðið greindi frá því fyrir skömmu að sauðfé verður slátrað með Halal aðferð að sið múslima m.a. í sláturhúsi vestur Húnvetninga (SKVH) á Hvammstanga í haust. Það er að jöfnunum hluta í eigu Kaupfélag Vestur-Húnvetninga (KVH) og Kaupfélags Skagfirðinga (KS).

Magnús Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri sláturhúss vestur Húnvetninga segir að þeir hafi ekki framleitt eitt einasta lamb með Halal aðferð í haust, enda ekki komnir með viðurkenningu til þess. Þarna sé hinsvegar um spennandi markað og tækifæri að ræða varðandi útflutning.

Nær ekki nokkurri átt

Magnús er ekki hress með fréttaumfjöllun um þetta mál þar sem hún geri ekki annað en kynda undir afstöðu örfárra þröngsýnna öfgatrúarmanna.

„Þetta nær ekki nokkurri átt og maður hélt að Íslendingar væru umburðarlyndari en þetta.”

Aðeins 3 hús af 8 með viðurkenningu

Að sögn Magnúsar hafa þrjú sláturhús af átta sauðfjársláturhúsum á landinu framleitt eitthvað með þessari aðferð. Viðkomandi hús þurftu að fá viðurkenningu eftir úttekt til að fá heimild til Halal slátrunar.

Upphaflega fóru SS, SKVH. Sláturhúsið á Sauðárkróki, Blönduósi og Norðlenska á Húsavík í að skoða Halal slátrun. Að sögn Magnúsar voru það einungis SS ásamt sláturfélaginu á Blönduósi og á Sauðárkróki sem hófu slíka slátrun í haust.