Stjórn Sláturfélags Suðurlands leggur til við aðalfund félagsins að greiddur verði 10%  arður af B-deild stofnsjóðs, alls 20 milljónir og reiknaðir 6% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls 12 milljónir.  Arður af B-deild stofnsjóðs verður greiddur út eigi síðar en 6. maí 2005. Greiðsla arðsins miðast við hlutafjáreign við upphaf aðalfundardagsins 8. apríl 2005.

Bréf félagsins hafa átt erfitt uppdráttar í Kauphöllinni og hefur stjórn félagsins brugðið á það ráð að halda úti viðskiptavakt á bréfin fyrir þá sem vilja losna við þau. Að sögn Steinþórs Skúlasonar, forstjóra SS, er félagið að verða komið upp í það 10% hámark sem það má eiga í sjálfu sér. B-deildarbréfin eru án atkvæðaréttar og sagði Steinþór að sala þeirra hefði verið tilraun til að koma á markað bréfum félagsins en ljóst væri að sú tilraun hefði ekki tekist. Verðmyndun þeirra væri ekki í samræmi við raunvirði félagsins. Hann sagði þó enga ákvörðun hafa verið tekna um breytingu á B-deildarkerfinu og ekki að vænta neina tillögur þar um fyrir aðalfund félagsins.