Undanfarið hefur farið fram undirbúningur á flutningi afgreiðsludeildar SS frá Reykjavík til Hvolsvallar. Afgreiðslan og tiltekt vara fyrir viðskiptavini verður þar með hluti af kjötvinnslu SS og lokaskrefið í framleiðsluferlinu. Með því að sameina afgreiðsludeildina kjötvinnslunni næst umtalsverð hagræðing sem lækkar rekstrarkostnað félagsins.

Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins.

Þar kemur fram að með afgreiðsludeildinni flytjast 8-10 störf til Hvolsvallar og bætast við starfsmannafjöldann á Hvolsvelli en þar eru fyrir um 130 ársverk en SS og dótturfélög eru stærsti vinnuveitandi á Suðurlandi.

Byggingar SS á Hvolsvelli eru um 8000 m2 að flatarmáli og hýsa kjötvinnslu SS. Þar eru framleiddar SS pylsur, 1944 réttir auk mikils fjölda annarra úrvals vara, samkvæmt frétt Bændablaðsins.

Í gær tók stjórnarformaður SS, Jónas Jónsson, fyrstu skóflustunguna af nýrri byggingu við verksmiðjuna sem mun hýsa afgreiðsludeildina.