Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir merki um það að hagræðingaraðgerðir í atvinnulífi bitni harðar á þeim sem fara í fæðingarorlof en áður. Þannig sé orðið algengara að starfsfólki sé sagt upp strax eða fljótlega eftir að þeir koma til baka til starfa úr fæðingarorlofi. Þetta kemur fram tímariti samtaka SSF, sem kom út í dag. „Friðbert telur þessa þróun ömurlega eftir margra ára framfarir og uppbyggingu fjölskylduvænnar stefnu fjáramálafyrirtækja,“ segir jafnframt.

Hann telur mikilvægt að lögfestur verði skilyrðislaus réttur nýbakaðs foreldris á starfi sínu, þegar viðkomandi kemur úr fæðingarorlofi. „Dæmin sanna að það er nauðsynlegt að tryggja enn frekar starfsöryggi foreldra í og eftir fæðingarorlof. Þeir verða að geta treyst því að þeir geti snúið til sinna starfa eftir fæðingarorlof, það eiga að vera ófrávíkjanleg skilyrði,“ segir Friðbert Traustason.

Í því skyni þurfi að breyta núgildandi lögum svo ekki sé nóg að vinnuveitandi þurfi að bjóða „sambærilegt starf“, heldur telur hann að starfsmenn ættu að hafa rétt til sama starfs. „Þeir eiga einfaldlega að geta treyst því að þeirra starf bíði þeirra,“ segir Friðbert. Þá telur hann að betur þurfi að fylgjast með að uppsagnir sem snúi að nýbökuðum foreldrum séu í samræmi við lög.