St. Jósefsspítali, sem var lokað árið 2011, hefur nú verið auglýstur til sölu á vef Ríkiskaupa. Fasteignin er samtals 2.829 fermetrar og fylgir henni tæplega 4.500 fermetra eignalóð. Spítalinn stendur við Suðurgötu 41 í Hafnarfirði er því mjög nálægt miðbænum.

Fasteignin samanstendur af sjúkrastofum, skrifstofurýmum, aðstöðu fyrir mötuneyti, móttöku og fleiru og  einnig er í byggingunni kapella.

„Húsið er byggt á árunum 1926, 1973 og 2006," segir í auglýsingu Ríkiskaupa. „Um er að ræða mjög virðulega og fallega byggingu, staðsetta í hjarta bæjarins á mjög góðum útsýnisstað. Húsið er í nokkuð góðu ástandi miðað aldur en þarfnast þó einhverra lagfæringa.

Óskað er eftir tilboðum í eignina. Við mat á tilboðum verður horft til hagstæðasta boðs fyrir fasteign og lóð en þó áskilja seljendur sér rétt til að meta hagkvæmni tilboðs út frá því hvort bjóðandi geri einnig tilboð í Suðurgötu 44, sem auglýst er til sölu samhliða þessari eign."

Óskað er eftir að tilboðsgjafar taki fram hvaða starfsemi þeir hyggist vera með í húsinu en við mat á tilboðum er heimilt að horfa til þess hvort starfsemi í húsinu til framtíðar tengist heilbrigðisþjónustu.

Í auglýsingunni vekja Ríkiskaup athygli á að samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar sé lóð Suðurgötu 41 skilgreind sem lóð undir samfélagsþjónustu. „Varðandi hugsanlega starfsemi í húsinu og á lóð er bjóðendum bent á að kynna sér nánar skipulagsmál eignarinnar og svæðisins hjá bæjaryfirvöldum," segir á vef Ríkisskaupa.

Árið 1987 seldu St. Jósefssystur Hafnarfjarðarbæ og ríkissjóði spítalann. Hann er því í sameiginlegri eigu bæjarins og ríkisins.

Frestur til að skila inn tilboðum rennur út 27. janúar á næsta ári.