Staða markaðsskuldabréfa í lok október 2009 nam 1.444 milljörðum króna og lækkaði um 82,6 milljarða í mánuðinum, samanborið við lækkun upp á 3,3 milljarða í mánuðinum á undan.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans en staða markaðsskuldabréfa nam á sama tíma í fyrra rúmum  1.436 milljörðum króna á sama tíma í fyrra, og hafði þá lækkað um 430 milljarða á milli mánaða vegna bankahrunsins. Þá nam staða markaðsskuldabréfa í upphafi þessa árs tæpum 1.513 milljörðum króna.

Mestu munaði um lækkun banka- og sparisjóðsbréfa sem lækkuðu um tæpa 67 milljarða á milli mánaða í október sl. en staða þeirra nam í lok október aðeins um 19 milljörðum króna.

Þá lækkuðu skráð bréf atvinnufyrirtækja um 27,5 milljarða og var staða þeirra í lok október um 216 milljarðar. Staða skráðra bréfa atvinnufyrirtækja nam í upphafi þessa árs um 335,6 milljörðum króna. Staða ríkisbréfa nam 304,4 milljörðum króna í lok október, og hækkaði aðeins um 2,3 milljarða á milli mánaða.  Á sama tíma í fyrra nam staða ríkisbréfa um 181 milljarði króna en rúmlega 235 milljörðum í upphafi þessa árs.

Íbúðabréf hækkuðu um 7,8 milljarða í september og var staða þeirra í lok október um 695 milljarða króna, , samanborið við tæpa 597 milljarða á sama tíma í fyrra og rúman 651 milljarð í upphafi þessa árs.

Markaðsvíxlar lækkuðu umtalsvert í október, eða um 48,5 milljarða króna eftir að hafa hækkað um tæpa 3,6 milljarða á milli mánaða í september. Þannig nam staða markaðsvíxla um 89,8 milljörðum króna í lok október, samanborið við 71 milljarð á sama tíma í fyrra. Þess má þó geta að í október í fyrra hafði staða markaðsvíxla lækkað um rúma 300 milljarða á milli mánaða. Í upphafi þessa árs nam staða markaðsvíxla rétt rúmum 100 milljörðum.

Þá lækkuðu hlutabréf sem skráð eru í Kauphöllinni um rúma 22,4 milljarða og er nú á svipuðu róli og í vor. Staða skráðra hlutabréfa nam þannig 181,2 milljörðum króna í lok október samanborið við tæpa 248 milljarða króna á sama tíma í fyrra.

Í október í fyrra höfðu hlutabréf, eins og gefur að skilja, lækkað verulega á milli mánaða en í lok september í fyrra nam staða þeirra 1.335 milljörðum króna og hafði því hrunið um rúma 1.100 milljarða króna á milli mánaða í október. Staða hlutabréfa í upphafi árs nam 217,3 milljörðum króna.