Iceland Express hyggst kaupa allt hlutafé í Ferðaskrifstofu Íslands samkvæmt þeirri viljayfirlýsingu sem nú liggur fyrir. Að sögn Matthías Imsland, framkvæmdastjóra Ferðaskrifstofu Íslands, verður rekstur félaganna aðskildur en hins vegar vænta menn samlegðaráhrifa varðandi nýtingu á flugvélum og þjónustukerfum.

,,Þetta eru sterk vörumerki en staða Ferðaskrifstofu Íslands var orðin gríðarlega slæm. Við mátum það þannig að það væri mikilvægt fyrir markaðinn í heild sinni að þeir yrðu áfram á markaðinum til að aðrir á þessum markaði yrðu ekki of stórir eða sterkir.”

Viðskipti Iceland Express og Ferðaskrifstofu Íslands hefur aukist í vetur og var til dæmis samið um að Icelanda Express sæi um allt flug til Tenerife í vetur. Jafnframt höfðu verið viðræður um aukið flug og sagði Matthías að það hefðu verið miklir hagsmunir fyrir þá að þetta gengi vel. Aðspurður neitaði hann að skuld Ferðaskrifstofu Íslands við Iceland Express væri mikil.

Síðasta haust var hlutafé Iceland Express aukið en stærsti eigandi félagsins, Eignarhaldsfélagið Fengur, lagði því þá til nýtt hlutafé. Hve mikið vildi Matthías ekki upplýsa.

,,Við höfum trú á Íslandi til lengri tíma og þess vegna erum við að fjárfesta á Íslandi. En það má búast við því að það verði töluverður samdráttur á markaðinum.”

Matthías sagði að nýliðið ár hefði komið þokkalega út fyrir Icelanda Express þó afkoman væri vissulega ekki til að hrópa húrra yfir. Þeir hefðu náð að halda kostnaði í skefjum og dregið vetraráætlunina saman um 30%. Sama myndi eiga við um sumaráætlun félagsins.