Sérfræðingar IFS greiningar segja varfærið mat á afskriftum eða útlánatapi fjármálastofnana vegna heimila vera 5 til 10 prósent. Í nýlegri skýrslu IFS segir að afskriftirnar séu e.t.v. lægri en ætla mætti en margir þeirra sem hafa neikvæða eiginfjárstöðu standa í skilum og sumir þeirra sem ráða ekki við greiðslubyrði lána eiga eignir umfram skuldir. Afskriftir fjármálastofnana vegna heimila eru því ekki eins miklar og ætla mætti, sagði Snorri Jakobsson, annar skýrsluhöfunda. Hann sagði þó aðspurður að skýrslan gæfi ekki tilefni til mikillar bjartsýni.

Óhætt er því að segja að þessi skýrsla sé nýjasta innlegg í umræðuna um skuldastöðu heimilanna en tölulegur bakgrunnur hennar byggist á samantekt og skýrslu Seðlabankans frá síðasta sumri til viðbótar við upplýsingar frá Hagstofunni. Að sögn Snorra var gerð tilraun til þess að leggja sjálfstætt mat á þau gögn sem liggja fyrir með það fyrir augum að meta vænt útlánatap fjármálastofnana vegna heimilanna sem ekki hefði verið gert í skýrslu Seðlabankans. Óhætt er að segja að skýrsla Seðlabankans frá síðastliðnu sumri hafi sætt mikilli gagnrýni, nú síðast í skýrslu sem unnin var fyrir Neytendasamtökin, en segja má að skort hafi á tölulegar samantektir um þetta brýnasta vandamál landsmanna. Af þessu má vera ljóst að það er ekki vandalaust að meta stöðu heimilanna.

Fjórðungur heimila í verulegum greiðsluvandræðum

Skýrsluhöfundar draga ekki undan að mikill vandi er fyrir höndum. Hrunið hafði þau áhrif að verðlag hækkaði. Innlendar vörur hækkuðu mun minna en innfluttar og urðu hlutfallslega ódýrari. Heimilin brugðust skjótt við nýjum raunveruleika og dróst innflutningur á föstu gengi saman um 45% á milli fyrstu níu mánuða ársins 2008 og 2009. Einkaneysla dróst minna saman því að fólk breytti neysluhegðun sinni á þann hátt að neysla á innlendum vörum jókst en neysla á innfluttum vörum dróst saman. Halli af vöruskiptum við útlönd breyttist í afgang. Þrátt fyrir þessa skjótu aðlögun virðist um fjórðungur heimila í landinu eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum, samkvæmt mati skýrsluhöfunda.

_______________________________

Nánar er fjallað um skuldastöðu heimilanna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.