Sem kunnugt er funda leiðtogar tuttugu helstu iðnríkja heims um hina alþjóðlegu fjármálakreppu í Washington í Bandaríkjunum um helgina. Fram kemur í grein Joel Sherwood á vef bandaríska blaðsins The Wall Street Journal að lítil ástæða sé til þess að vænta árangurs af fundinum: Misheppnaðar tilraunir íslenskra stjórnvalda til þess að tryggja sér alþjóðlega aðstoð vegna efnahagshrunsins hér á landi sýna að alþjóðlegt samstarf er ekki efst á baugi í fjármálakreppinni.

Í grein Sherwood eru raunir íslenska hagkefisins raktar og því lýst hvernig stjórnvöldum hefur ekki tekist að tryggja lánalínur þrátt fyrir að hafa fengið fyrirheit um slíka fyrirgreiðslu. Sagt er frá því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi lofað 2 milljarða Bandaríkajdala láni gegn því að íslensk stjórnvöld öfluðu sömu upphæðar úr öðrum áttum: Eitthvað sem Sherwood segir vera afar erfið skilyrði fyrir lántakanda sem nú þegar rambar á barmi gjaldþrots. Og á sama tíma halda aðrir mögulegir lánveitendur að sér höndum þangað til að lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum berst. Ástandið hefur gert það að verkum að mati Sherwood að Íslendingar eru orðnir flæktir í marghliða milliríkjasamskipti og getur þar af leiðandi lítið gert á ögurstundu.

Sherwood bendir jafnframt á að deilur íslenskra stjórnvalda við bresk og hollensk stjórnvöld um hvernig eigi að gera upp innlánareikninga íslensku bankanna á erlendri grund flækja málin enn frekar. Þetta vandamál hafi ekki komið upp þegar gengið var frá neyðarláni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en ljóst sé að forráðamenn sjóðsins hafi beygt sig undir þrýsting frá Bretum og Hollendingum um að veita Íslendingum ekki fyrirgreiðslu fyrr en að búið sé að ganga frá uppgjöri þessara innlánareikninga. Sherwood segir að sökum lagaflækja kunni að taka langan tíma að ganga frá slíku samkomulagi.

Að mati Sheerwood hafa íslenskir stjórnmálaleiðtogar gert lítið til þess að bæta ástandið með því að haga sér eins og vindhanar í mikilvægum málaflokkum. En hann dregur þá ályktun að þar sem að erfitt hefur verið að útfæra neyðaraðstoð handa Íslendingum sé lítil ástæða fyrir fjárfesta og aðra að vænta að fundurinn í Washington um helgina verði til þess að helstu ríki heims grípi til samhæfðra aðgerða vegna þeirrar fjármálakreppu sem nú gengur í ljósum logum um alþjóðahagkerfið.

Skrif Sheerwood ríma ágætlega við það sem fræðimenn á borð við Charles Kindleberger hafa sagt hafa stuðlað að því að kreppan á fjórða áratugnum var svo „mikil“ og djúpstæð. Kreppan var alþjóðleg en að sama skapi var ekki gripið til alþjóðlegra aðgerða hennar vegna. Hver ríkisstjórn reyndi að leysa málið fyrir sig og það gerði það eingöngu að verkum að menn mögnuðu upp vandann og reyndu að ýta honum áfram yfir á önnur ríki.

Fátt virðist benda til þess að stjórnmálamenn og stefnusmiðir okkar daga hafi numið þennan lærdóm. Allavega sjást ekki sterkar vísbendingar um það í Evrópu svo nærtækt dæmi sé tekið. Þrátt fyrir hið djúpstæða samrunaferli verður ekki séð að leiðtogar ríkja álfunar hafi komið sér saman um björgunaraðgerðir sem skipta einhverju máli á vettvangi Evrópusambandsins. Þegar þýsk stjórnvöld tilkynntu um björgunaðgerðir sínar handa fjármálafyrirtækjum duldist engum að þau hafa engan hug að nota skattfé borgara sinna til þess að bjarga bönkum annarra ríkja. Í sjálfu sér er þetta skiljanleg afstaða en hinsvegar verður að hafa í huga að flest ríki Evrópu hafa samþykkt að hafa með sér einn fjármálamarkað þar sem að bankar geta starfað þvert á landamæri. Í slíku umhverfi er vert að spyrja hvort að bankar hafi yfir höfuð eitthvað sérstakt varnarþing í tilteknu þjóðríki og hvort að það sé yfir höfuð æskilegt: Eru ekki bankar á sameiginlegum markaði sameiginlegt þeirra ríkja sem deila þeim markaði?

Stjórnmálaskýrendur hafa bent á að harka breskra stjórnvalda gagnvart þeim íslensku í deilunni um Icesave-reikninganna kunni að stýrast af því að mikill fjöldi erlendra banka starfa í Bretlandi. Myndu stjórnvöld í London sýna Íslendingum linkind myndi það gefa hættulegt fordæmi ef að illa færi hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.  Hugsanlega er nokkuð til í þessu en að sama skapi setur það líka hættulegt fordæmi ef að íslenskum stjórnvöldum verði gert að tryggja allar innistæður íslensku bankanna á erlendum vettvangi. Ísland skiptir litlu sem engu máli í hinu stærra samhengi hlutanna en hvað myndi gerast ef að það færi illa hjá veigameira hagkerfi sem býr við að eiga mjög stóran alþjóðlegan fjármálageira í samanburði við stærðir í raunhagkerfinu. Sem kunnugt er þá eru slík hagkerfi til staðar í Evrópu og vildi svo illa til að fjármálageiri einhvers þeirra myndi hrynja myndi það einmitt sýna fram á hversu mikilvægt að ríki hafi með sér samstarf um að leysa þau vandamál sem fylgja þeirri miklu kreppu sem nú er uppi á fjármálamörkuðum.

Fjármálakreppan hefur mörg kraftbirtingarform og íslenska bankahrunið er aðeins eitt þeirra. En að sama skapi er kjarni vandans í öllum tilfellum sá hinn sami og hann verður ekki leystur nema með samhæfðu átaki ríkja. Eins og Sherwood bendir á í grein sinni þá er lítil ástæða til þess að vænta þess að fundur tuttugu helstu iðnríkja heims um helgina verði fyrsta skrefið í þá átt: Staða Íslands um þessar mundir réttlætir ekki að minnsta kosti ekki slíkar væntingar.