Fyrrverandi stjórnendur Landsbankans hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um alþjóðlega innlánsreikninga Icesave. Þar segir m.a. að rangt sé að Landsbankinn hafi ekki haft eignir til þess að setja á móti Icesave innistæðum eins og ráði megi af umræðum í þjóðfélaginu. Ástæða þess að ekki var búið að umbreyta Icesave útibúi bankans í dótturfélag hafi verið lagalegs eðlis.

Aðgerðir breskra yfirvalda gegn dótturfélagi Kaupþings, Singer & Friedlander, hafi verið á eigin forsendum og  ekki tengst málefnum Landsbankans eins og kom fram m.a. á breska þinginu.

„Uppgjör bankans staðfesta að staðan var traust og eignir vel umfram skuldir, enda eigið fé og víkjandi lán bankans um 350 milljarðar skv. síðasta birta uppgjöri bankans þann 30.6.2008.  Enda náðist fullt samkomulag við bresk yfirvöld (FSA) 29. maí um meðferð reikninganna, lausafjárstýringu og tilhögun markaðssetningar í framhaldi af þeirri umræðu sem varð á vormánuðum í tengslum við Icesave reikningana  í breskum fjölmiðlum,“ segir í yfirlýsingunni. „Umræður um að Icesave kröfur lendi á þjóðarbúinu á nokkrum misskilningi byggðar, burtséð frá deilum íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda um réttarstöðu innlánseigenda í Bretlandi og Hollandi og greiðsluskyldu íslenska Tryggingarsjóðsins. Þetta sést gleggst á því að þótt tjónið af hruni bankanna með þeirri aðferð sem beitt var við þjóðnýtingu bankanna og ólögmætar og óréttmætar aðgerðir Breta sé mikið, þurfa 50% af eignum bankans, sem voru um 4.400 milljarðar miðað við 30. sept. 2008, að glatast til þess að ekki séu nægar eignir til að mæta forgangskröfum gagnvart bankanum.  Hins vegar er ljóst að þessar eignir eru ekki lausafé og því er eðlilegt að það þurfi lántökur í ákveðinn tíma á meðan eignunum er komið í verð og lánasafn bankans innheimtist. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að ætlast til þess af lánþegum bankans að þeir greiði upp sín lán fyrir gjalddaga.  Vönduð vinna við sölu eigna og aðra úrvinnslu á lánasafni bankans skiptir því miklu máli um niðurstöðu málsins.“

í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir að vonandi muni þeir sem nú beri ábyrgð á því verki að koma eignum bankans í verð og innheimta lánasafn bankans sem og aðrar kröfur, þ.e. starfsmenn nýja bankans og skilanefnd Landsbankans ná að varðveita nægjanlegar eignir til að tryggja að þetta gangi fram. Hins vegar sé ljóst að eftir hrun kerfsins og þær víðtæku afleiðingar sem það kemur nú til með að hafa á efnahagslíf okkar Íslendinga skiptir miklu máli við endanlega niðurstöðu á mati á eignum.