Í fimmtudagsfréttum Ríkisútvarpsins var fjallað um stöðu lífeyrissjóða í þeirri niðursveiflu sem nú stendur yfir í íslensku efnahagslífi. Í viðtali sjónvarpsins sagði Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, stöðu sjóðanna mjög góða.

„Lífeyrissjóðirnir standa mjög vel að vígi, þannig að þessi kreppa þarf að vera mjög langvarandi og mjög djúp til að hafa einhver áhrif á starfsemi sjóðanna“ sagði Hrafn.

„Vissulega kemur fram í ávöxtuninni þegar illa árar á verðbréfamörkuðum. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Veiking íslensku krónunnar kemur fram sem aukning á eignum lífeyrissjóðanna erlendis. Lífeyrissjóðirnir eru ekki að selja hlutabréf eins og staðan er í dag og sjá jafn vel kauptækifæri eins og staðan er núna. En vissulega hafa menn verið með eignirnar meira í skuldabréfum nú en áður.“

Meðalraunávöxtun lífeyrissjóða var neikvæð á árunum 2000-2002. Á árunum 2003 til 2006 var hún á bilinu 10-13%. Í fyrra dróst hún verulega saman og áætlað er að hún hafi verið 0,5%.