Staða markaðsskuldabréfa í lok júlí 2010 nam tæpum 1.802 milljörðum króna og hækkaði um 33,3 milljarða á milli mánaða. Í upphafi þessa árs nam staða markaðsverðbréfa um 1.557 milljörðum króna og hefur því hækkað um rúma 240 milljarða frá áramótum.

Þá hefur staða markaðsskuldabréfa hækkað um rúma 270 milljarða á milli ára.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Staða verðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um tæpa 10 milljarða króna á milli mánaða í ágúst og nam þá  um 56,3 milljörðum króna, samanborið við rétt rúma 20 milljarða á sama tíma í fyrra.

Stóða óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði hins vegar um rúma 16,8 milljarða á milli mánaða í ágúst, mest allra markaðsskuldabréfa, en í lok ágúst nam staða þeirra rúmum 607 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam staða óverðtryggðra ríkisbréfa um  300 milljörðum króna og hefur því hækkað um tæpa 307 milljarða á milli ára, mest allra skuldabréfa.

Skráð bréf atvinnufyrirtækja lækkaði um tæpar 670 milljónir króna í ágúst en þá nam staða þeirra rúmum 144 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam staða sömu bréfa um 250 milljörðum króna þannig að staða þeirra hefur minnkað nokkuð á milli ára, eða um rúma 106 milljarða. Lækkunin átti sér að mestu stað á fyrri hluta þessa árs en staða þeirra hefur þó hækkað lítillega í sumar.

Skráð bréf sveitafélaga hækkuðu um 4,6 milljarða króna og nam í lok ágúst tæpum 46 milljörðum króna. Þá hefur staða sömu bréfa hækkað um 8 milljarða frá áramótum en aftur á móti lækkað um tæpa 12 milljarða á milli mánaða.

Þá hækkaði staða íbúðabréfa um tæpa 3,4 milljarða króna á milli mánaða í ágúst en staða þeirra var þá rúmir 745 milljarðar króna. Staða íbúðabréfa hefur þá hækkað um tæpa 59 milljarða á milli ára.

Markaðsvíxlar lækka mikið á milli ára

Markaðsvíxlar hækkuðu um rúmar 140 milljónir króna á milli mánaða í ágúst en staða þeirra var í lok mánaðarins tæpir 74 milljarðar króna. Þá hefur staða markaðsvíxla lækkað um 11,8 milljarða á milli ára. Nær alla lækkunina má rekja til lækkunar ríkisvíxla.

Skráð hlutabréf hækka á milli ára

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu um rúman 1,7 milljarð á milli mánaða í ágúst og nam staða þeirra í lok mánaðarins rúmum 244 milljörðum króna. Þá hafa skráð hlutabréf hækkað um tæpa 39 milljarða á milli ára. Til frekar upplýsinga þá hefur virði skráðra bréfa á aðallista Kauphallarinnar hækkað um 30 milljarða á milli ára á meðan virði bréfa á First North markaðnum hefur hækkað um 9 milljarða á milli ára.