Staða ríkissjóðs er afar sterk um þessar mundir, og þótt nokkuð hafi hægt á vexti skatttekna aukast þær enn jafnt og þétt, segir greiningardeild Glitnis.

Innheimtar skatttekjur ríkissjóðs á fyrsta fjórðungi námu tæpum 112 milljörðum króna sem jafngildir tæplega 15% raunaukningu frá sama tímabili í fyrra.

?Aukningin er svipuð hvort sem litið er til skatta á tekjur og hagnað eða vöru og þjónustu. Athyglisvert er að þrátt fyrir lækkun skatthlutfalls tekjuskatts á einstaklinga um eitt prósentustig aukast tekjur af þessum skattstofni um ríflega 17% í krónum talið. Á sama tíma hækkaði launavísitala að meðaltali um tæplega 10% og starfandi á vinnumarkaði fjölgaði um 5,7%.

Fjármálaráðuneytið bendir á að viðsnúningur hafi orðið á þeirri þróun til hægari vaxtar veltuskatta sem einkenndi allt síðasta ár. Þannig nam aukning veltuskatta umfram verðbólgu 11% á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tíma í fyrra. Verður forvitnilegt að sjá hvort viðlíka aukning verður á næstu mánuðum eftir nýlega lækkun opinberra gjalda á matvöru og tengda liði,? segir greiningardeildin.

Tekjujöfnuður ríkissjóðs á fyrsta fjórðungi var jákvæður um 34,5 milljarðar króna; heildartekjur á tímabilinu voru 119,2 milljarðar króna á móti 84,7 milljarða króna heildarútgjöldum.

?Útkoman er öllu betri en fjárlög gerðu ráð fyrir, og verði framhald á þeirri þróun gæti ríkissjóður skilað nokkrum afgangi á þessu ári. Hreinn lánsfjárjöfnuður var þó nánast í jafnvægi, og skýra kaup ríkisins á hlut sveitarfélaga í Landsvirkjun neikvæðar fjármunahreyfingar. Í heild má segja að sá hagsveiflutengdi bati sem orðið hefur á rekstri ríkissjóðs undanfarin misseri virðist ætla að reynast býsna lífseigur og þrátt fyrir lækkun skatta standi ríkissjóður mjög sterkur næsta kastið,? segir greiningardeildin.