Samgönguráðuneytið hefur auglýst lausa til umsóknar stöðu vegamálastjóra. Umsóknarfrestur er til 23. mars næstkomandi.

Hreinn Haraldsson hefur gegnt embætti vegamálastjóra frá 1. maí á síðasta ári en hann var settur tímabundið vegna hugsanlegrar endurskipulagningar stofnunarinnar. Setning hans rennur út í lok apríl og því er staðan nú auglýst.

Starfshópur sem Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði í byrjun árs vinnur nú að því að meta hugsanlega sameiningu samgöngustofnana og má vænta tillagna hans þegar líður á árið.

Krafist er háskólamenntunar í verkfræði eða sambærileg menntun í starf vegamálastjóra. Þá er farið fram á víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum og áætlanagerð. Sömu leiðis frumkvæði og leiðtogahæfni. Reynsla og hæfileiki til að miðla upplýsingum ásamt hæfni í samskiptum er líka talin upp í hæfniskröfum ráðuneytisins og eru konur jafnt sem karlar hvattar til að sækja um stöðuna.