Fall og yfirtaka íslenska ríkisins á Straumi hefur verið talsvert í umræðunni hjá fjölmiðlum á hinum Norðurlöndunum í morgun.

Hjá E24 í Noregi er m.a. vísað í viðtal við Harald Magnus Andreassen yfirmann First Securities sem segir Ísland vissulega sérstakt tilfelli, en sömu vísbendingar megi sjá í öðrum löndum.

Hann segir að sjá megi þjóðnýtingarbylgju vera að byrja að ríða yfir lönd eins og Bandaríkin, Stóra-Bretland og Þýskaland. Það sé dramatísk útvíkkun á málinu.

Segir hann ferilinn allstaðar þann sama. Fyrst veiti ríkið bönkunum ríkisábyrgðir, en í kjölfarið komi þjóðnýting.

Í Noregi sé þjóðnýting enn ekki á döfinni en ríkið hafi þó veitt bönkum þar í landi fyrstu hjálp.