Staða markaðsskuldabréfa nam 1.975 milljörðum króna í lok desember sl. og lækkaði um 2,7 milljarða á milli mánaða. Í upphafi síðasta árs nam staða markaðsverðbréfa um 1.805 milljörðum króna, skv. hagtölum Seðlabankans, og hefur því hækkað um 170 milljarða króna á milli ára.

Mest var lækkunin á stöðu Íbúðabréfa en þau lækkuðu um rúma 4,8 milljarða króna í desember. Í lok árs var staða þeirra um 788 milljarða króna og hafði þá hækkað um rúma 29 milljarða króna á milli ára. Þá lækkuðu skráð erlend skuldabréf einnig nokkuð, eða um 3,4 milljarða króna. Staða erlendra skuldabréfa hefur þó hækkað um rúma 29,6 milljarða króna á milli ára.

Aftur á móti hækkaði staða skráðra bréfa fyrirtækja um rúma 6 milljarða króna í desember. Í lok ársins nam staða þeirra bréfa 142,7 milljörðum króna en hafði þó lítið breyst hlutafallslega á milli ára, um 670 milljónir króna.

Ekki var mikil hreyfing á ríkisbréfum á milli mánaða í hlutfalli við umfang þeirra. Staða óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði um rúma 1,8 milljarða króna og nam 619,7 milljörðum króna í árslok. Þannig hafði staða þeirra hækkað um rúma 32 milljarða króna á milli ára. Staða verðtryggðra ríkisbréfa hækkaði hins vegar um tæpa 1,4 milljarða króna og nam 143 milljörðum króna árslok. Staða verðtryggðra ríkisbréfa hafði þannig hækkað um 70 milljarða á síðasta ári.

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu um rúma 24 milljarða á milli mánaða í desember. Í árslok nam staða þeirra 280,3 milljörðum króna og hafði þá hækkað um 33,6 milljarða króna á milli ára. Þar af nam staða hlutabréfa á Aðallista Kauphallarinnar 254 milljörðum króna, og hafði hækkað um 30,3 milljarða á milli ára.