*

þriðjudagur, 28. september 2021
Fólk 13. janúar 2021 16:30

Staða Garðars í TM lögð niður

Garðar Þ. Guðgeirsson framkvæmdastóri þróunar hjá TM hættir störfum hjá félaginu samhliða því að staðan er lögð niður.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar TM eru í Síðumúla í Reykjavík, en Garðar Þ. Guðgeirsson, að neðan, hefur gengt starfi framkvæmdastjóra þróunar hjá félaginu.
Aðsend mynd

Garðar Þ. Guðgeirsson, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra þróunar hjá TM hf., hefur tekið ákvörðun um að láta af störfum hjá félaginu að því er segir í tilkynningu félagsins til kauphallar.

Fyrirtækið hefur tekið þá ákvörðun að samhliða brotthvarfi Garðars verði sú breyting gerð á framkvæmdastjórn TM að staða framkvæmdastjóra þróunar verður lögð niður.

„Garðar hefur verið lykilmaður í þróunarverkefnum TM á undanförnum árum og ég þakka honum kærlega fyrir samstarfið um leið og ég óska honum velfarnaðar í verkefnum á nýjum vettvangi,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í haust hófu TM viðræður við Kviku banka um sameiningu kauphallarfyrirtækjanna tveggja. Samkvæmt samkomulagi félaganna frá lokum nóvember eignast hluthafar TM meirihlutann í hinu sameinaða félagi sem mun bera nafn Kviku banka, og vera undir yfirstjórn forstjóra Kviku.