Fjárhagsleg staða ríkissjóðs er ekki eins slæm og hún virðist í alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir töluverðan halla á fjárlögum og útlit fyrir að svo verði áfram á næstu misserum þá stendur landið mun betur en mörg OECD-ríkin, að mati greiningardeildar Arion banka. Deildin segir í Markaðspunktum sínum í dag að í kjölfar efnahagsþrenginga síðustu ára hafi flest ríki þurft að auka útgjöld sín umtalsvert til að örva efnahagslífið og tryggja stöðugleika fjármálakerfisins. Það skýri að miklu leyti neikvæðan tekjujöfnuð margra ríkja en aðeins fjögur ríki innan OECD skiluðu jákvæðum tekjujöfnuði í fyrra.

Tekjuafkoman versnaði á milli ára

Deildin bendir á að við lok síðustu aldar námu brúttó skuldir hins opinbera að meðaltali 70% af landsframleiðslu innan OECD-ríkjanna en 110% í lok síðasta árs. Skuldsetning hins opinbera nemur nú í kringum 130% af landsframleiðslu að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum samanborið við rúm 50% af landsframleiðslu árið 2007. Þá námu skuldir ríkissjóðs 1.958 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðung á þessu ári eða sem nemur 107% af landsframleiðslu. Þetta er 61 milljarði króna meira en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Á sama tíma drógust eignir ríkissjóðs saman um 37 milljarða og námu þær 1.110 milljörðum króna í lok fjórðungsins. Hrein eign ríkissjóðs er því neikvæð um 848,3 milljarða króna eða sem nemur ríflega 46% af vergri landsframleiðslu.

Í Markaðspunktunum segir að tekjuafkoma hins opinbera, þ.e. ríkissjóðs, almannatrygginga og sveitarfélaga kom nokkuð verr út á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra. Tekjuafkoman reyndist neikvæð um 8,2 milljarða króna nú miðað við 6,7 milljarða í fyrra.

Ekki eitt í veröldinni

Greiningardeild segir að Ísland sé ekki eitt á báti því álíka þróun hefur átt sér stað hjá öðrum OECD ríkjum. Við lok síðustu aldar námu brúttó skuldir hins opinbera að meðaltali 70% af landsframleiðslu innan OECD en árið 2012 var hlutfallið komið upp í 110%.