*

laugardagur, 4. júlí 2020
Innlent 26. júní 2018 10:14

Staða hótela úti á landi erfiðari

Fulltrúar Keahótela og CenterHótela telja að hótelin muni fá jafn marga gesti og í fyrra.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Fulltrúar Keahótela og CenterHótela reikna með að hótelin muni fá jafn marga gesti og í fyrra. Staða hótela á landsbyggðinni sé þó erfiðari en hótela í Reykjavík. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Ester Björnsdóttir, sölustjóri Keahótela, segir í samtali við Morgunblaðið að töluvert minna sé um bókanir frá hópum heldur en síðasta sumar. Bókunum frá einstaklingum sé hins vegar að fjölga, en slíkar bókanir komi með styttri fyrirvara. Þau telji að þetta sé merki um breytta ferðahegðun, en ekki að áhuginn á Íslandi sé að minnka. Þessi breyting sé meira áberandi á Norðurlandi en í Reykjavík, þar sem að stór hluti gesta sem komi á hótelin þeirra fyrir norðan yfir sumartímann ferðist í hópum á vegum ferðaskrifstofa. Hún telur að þessi breytta ferðahegðun hafi minni áhrif í Reykjavík, enda sé meiri eftirspurn þar frá einstaklingum.

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri og eigandi CenterHótela, segist í samtali við Morgunblaðið reikna með sama gestafjölda og í fyrra. Herbergjanýting hótelanna verði því áfram há. Að hans sögn eru apríl og maí orðnir nýja lágönnin innan ferðaþjónustunnar. Hann hefur þó áhyggjur af því hvernig eftirspurnin sé eftir hótelherbergjum úti á landi. 

Stikkorð: Keahótel CenterHótel