Lántökukostnaður Ítala er enn á ný kominn yfir 7%. Það þykir í hærri kantinum. Þegar Grikkir og Írar lentu í sömu stöðu fóru stjórnvöld landanna niður á hnén og leituðu ásjár Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Lítið hefur dregið úr erfiðleikum Ítala á nýju ári. Atvinnuleysi mælist nú 8,6% sem er meira en reiknað var með og hefur það ekki verið meira síðan í maí í hittifyrra. Aðstæður eru sérstaklega slæmar í röðum fólks á aldrinum 15 til 24 ára en atvinnuleysi hjá þeim hópi nemur 30,1%.

Mario Monti, sem tók við forsætisráðherrastólnum af Silvio Berlusconi seint í fyrra, mun eftir því sem erlendir fjölmiðlar herma þurfa að hækka eignaskatta, endurskipuleggja lífeyrissjóðakerfið og herða viðurlög við undanskoti á skattgreiðslum ætli honum að takast að koma efnahagslífi landsins á réttan kjöl.