Alþjóðaefnahagsráðið hefur gefið út sína árlega skýrslu um stöðu kynjajafnréttis í heiminum.

Ísland er nú sjöunda árið í röð í efsta sæti þessarar úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins á jafnrétti kynjanna.

Lagt er mat á stöðuna á fjórum sviðum. Út frá aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu, aðgengi að menntun, þátttöku í stjórnmálum og efnahagslegri stöðu.

Í efnahagslega hlutanum er horft til atvinnuþátttöku, launajafnréttis, heildaratvinnutekna og hlutfalls kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga.

Það sem Íslandi er helst talið til tekna er jafnt aðgengi stúlkna og drengja að menntun og völd kvenna þ.e. í forsetastóli og í stóli forsætisráðherra en fæðingarorlofið, sér í lagi 90 dagar fyrir feður á einnig þátt í þessum árangri Íslands.

Úttektin hefur nú verið framkvæmd 10 sinnum og í ár voru  145 ríki tekin út með tilliti til ofangreindra þátta.