Við fyrstu sýn mætti ætla að íslenskir lífeyrissjóðir hafi styrkt stöðu sína mikið á síðasta ári. Iðgjöld jukust um rúm 15% og námu 210 milljörðum króna og heildareignir jukust um rúma 300 milljarða og voru samtals 4.239 milljarðar undir lok ársins. Þegar horft er til ávöxtunar og heildarstöðu sjóðanna blasir hins vegar önnur mynd við sem vekur upp spurningar um hvort skuldbindingar sjóðanna verði endurskoðaðar í niðursveiflunni framundan.

lífeyrissjóðir
lífeyrissjóðir

Hrein raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var mun lakari í fyrra en árið 2017. Samkvæmt nýrri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um stöðu lífeyrissparnaðar við árslok 2018 nam hrein raunávöxtun sjóðanna 1,95% á síðasta ári samanborið við 5,38% árið á undan.

Þessi mikla lækkun kann að koma á óvart þar sem hagvöxtur var 3,6% og  þótt  hægt hafi á hækkun eignaverðs í fyrra var samdráttur hvergi sjáanlegur í spákortum greinenda. Miklar sveiflur hafa hins vegar einkennt ávöxtun lífeyrissjóðanna á hagvaxtarskeiði síðastliðinna ára; til að mynda var engin ávöxtun árið 2016 miðað við 8% ávöxtun árið 2015. Lífeyrissjóðir horfa langt fram í tímann í fjárfestingum sínum og ólíkt mikið gíruðum vogunarsjóðum þá stafar þeim lítil hætta af kröppum skammtímasveiflum á mörkuðum.

Lífeyrissparnaður er hugsaður til langs tíma og ræðst af meðalávöxtun yfir fjölda ára eða áratugi. Í því sögulega ljósi  mega sjóðirnir vel við una enda hefur meðalávöxtunin hér verið mun hærri en hjá flestum iðnríkjum innan OECD.  Þannig hefur meðalávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna verið 4,54% síðastliðin fimm ár og 4% frá  hruni sem er á pari við 4% meðalávöxtun síðastliðin 25 ár.

Ari Skúlason er hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans og stjórnarmaður í Lífeyrissjóði bankamanna. Hann segir skýrsluna ekki gefa rétta mynd af ávöxtun sjóðanna undanfarin misseri þar sem mikil dýfa á verðbréfamörkuðum sl. desember, bæði hér og erlendis, hafi  skekkt niðurstöðuna verulega.

„Þessi dýfa var úr takti við almenna verðþróun á mörkuðum eins og sést kannski best á því hve hratt markaðirnir réttu sig við strax eftir áramót. Þá hafa lífeyrissjóðirnir náð  mjög góðri ávöxtun það sem er þessu ári og þrátt fyrir samdrátt í landsframleiðslu reiknum við með góðri ávöxtun í ár og því má kannski segja að hluti af ávöxtun síðasta árs verði tekin út á þessu ári.

Þetta er hins vegar ágæt áminning um hve mikilvægt er að hafa í huga hvað ólíkur tímarammi getur haft mikil áhrif á myndinni sem verið er að draga upp. Það er t.d. töluverður munur á útreikningum á meðalávöxtun eftir því hvort  miðað er við  síðustu 10 ár eða 15 ár, en áhrif hrunsins koma aðeins fram í seinni tímarammanum en ekki þeim fyrra.  Það fer svo eftir stefnu og markmiðum sjóðanna í hverju tilfelli fyrir sig hvaða tímaramma best er að miða við. Lífeyrissjóðir fjárfesta til langs tíma sem þýðir að skammtímasveiflur hafa frekar lítil áhrif á árangur þeirra,“ segir Ari.