Tryggingarfræðileg staða lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði hefur verið í jafnvægi undanfarin ár, en versnaði um 55 milljarða í fyrra sem þýðir að heildarstaða sjóðanna er neikvæð um 6,4%. Tvær megin ástæður eru fyrir því að staða sjóðanna versnaði að þessu leyti í fyrra er annars vegar lakari ávöxtun sjóðanna í fyrra miðað við árið á undan. Og hins vegar óhagstæð lýðfræðileg þróun í samsetningu sjóðfélaga.

Tryggingarfræðileg staða mælir í raun samband ávöxtunar eigna og skuldbindinga og svarar spurningunni hvort núverandi ávöxtun standi undir þeim lífeyrisgreiðslum sem sjóðirnir þurfa að greiða út. Neikvæð tryggingarfræðileg staða þýðir að ávöxtunin sé of lág (eða skuldbindingarnar of háar) og jákvæð staða að ávöxtunin dugi og gott betur.

Þrátt fyrir mikinn hagvöxt og auknar tekjur af iðgjöldum versnaði tryggingarfræðileg staða lífeyrissjóðanna mikið á síðasta ári vegna lægri ávöxtunar. Og þótt tryggingarfræðileg staða hljómi í eyrum flestra sem framandi tæknimál getur verri staða leitt til lækkunar á lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir lífeyrissjóði lagalega skuldbundna til þess að breyta samþykktum sjóðanna ef tryggingafræðileg staða þeirra er jákvæð eða neikvæð um meira en 10%.

„Hið sama á við þegar mismunur eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Slík endurskoðun átti sér stað eftir hrun og leiddi til þess að lífeyrisgreiðslur lækkuðu nokkuð. Helsta áskorun lífeyrissjóða felst í því hvort áætlun um þróun eignarliða og skuldbindinga haldi. Þetta á við um alla lífeyrissjóði og það hefur lengi legið fyrir að á næstu árum verður víða á brattann að sækja vegna lýðfræðilegra breytinga í samfélaginu.  Á hverju ári fjölgar þeim hratt sem eiga rétt á lífeyri og örorku, en jafnframt er fyrirséð að nýjum greiðendum í sjóðina mun fjölgar miklu hægar.

Hér sem og erlendis hafa varnaðarorð og áhyggjuraddir um þessa áskorun verið í umræðunni um langt skeið. Sitt sýnist hverjum enda óvissa óhjákvæmileg þegar spár um framtíðina eru annars vegar. En hver sem niðurstaðan verður þá er íslenska lífeyrissjóðskerfið vel í stakk búið til að mæta áskoruninni.

Ár hvert er það metið hvort og þá hversu vel ávöxtun sjóðanna dugi fyrir skuldbindingum þeirra, sú vinna er í höndum tryggingastærðfræðinga og um þetta mat gilda sérstakar reglur. Sjóðirnir gera ítarlega grein fyrir niðurstöðu tryggingafræðilegs mats í ársskýrslum sínum.

Lífeyrissjóðirnir flestir, að minnsta kosti þeir stærstu, eru mjög virkir fjárfestar á markaði, bæði hér innanlands og erlendis. Það þýðir að þeir eru stöðugt að fjárfesta í eignum í samræmi við fjárfestingarstefnu sína. Þar undir falla bæði hlutabréf og skuldabréf. Það Þýðir hins vegar ekki að þeir séu stöðugt að kaupa og selja sömu eignaflokkana eftir sveiflum á markaði frá degi til dags. Lífeyrissjóðir eru í eðli sínu langtímafjárfestar, enda sýnir áratugareynsla að slík sýn á markaðinn skilar góðum árangri þegar til lengri tíma er litið.

Skammtímasveiflur hafa því ekki endilega mikil áhrif á fjárfestingar eða afkomu lífeyrissjóðanna. Gott dæmi um það er sú niðursveifla sem varð á verðmæti erlendra eigna upp úr miðju ári í fyrra. Strax í byrjun þessa árs hækkaði gengi þeirra eigna á ný og er verðmæti þeirra nú á miðju ári þegar orðið meira en var fyrir varðfallið í fyrra. Hefðu sjóðirnir farið á taugum og selt í fallandi verði hefði það fljótræði leitt af sér talsvert eignatjón fyrir sjóðina.

Nú er niðursveifla í hagkerfinu. Óhjákvæmilega hafa lækkandi tekjur sjóðfélaga í för með sér að iðgjaldagreiðslur í sjóðina lækka, en sú lækkun hefur ekki áhrif á getu sjóðanna til að standa undir skuldbindingum sínum, vegna þess að skuldbindingarnar eru gagnvart hverjum og einum sjóðfélaga og þær eru í samræmi við þau réttindi sem hann hefur áunnið sér með sínum iðgjöldum. Þetta er sömuleiðis einn meginstyrkur okkar lífeyriskerfis, það er í rauninni fullfjármagnað sjóðsöfnunarkerfi sem þarf ekki að treysta á gegnumstreymi skattgreiðslna frá minnkandi vinnumarkaði til að greiða lífeyri til stækkandi hóps lífeyrisþega.

Mesta áskorunin sem okkar lífeyriskerfi stendur frammi fyrir er hins vegar hækkandi aldur þjóðarinnar sem þýðir að hver og einn þarf að fá greiddan lífeyri lengur en áður. Frá upphafi lífeyriskerfisins árið 1969 hefur aldur þjóðarinnar hækkað, lífslíkur aukist, þannig að nú er að meðaltali hver lífeyrisþegi ríflega helmingi lengur á ellilífeyri en þá var og sá tími mun lengjast enn meira á næstu árum. Þetta er stærsta verkefni okkar sem við vinnum að lausn á með aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum. Hluti af þeirri lausn er hækkun iðgjaldsins með því að mótframlag vinnuveitenda var aukið í áföngum úr 8% af launum í 11,5% eins og það er nú.

Þegar á allt er litið, hvernig lífeyrissjóðirnir takast á við sveiflur í hagkerfinu, hvernig þeir sem langtímafjárfestar standa af sér flest áföll og geta gefið sér tíma til að afla þess ávinnings sem jafnan kemur í kjölfar niðursveiflna, hvernig sjóðirnir eru fjármagnaðir í takti við skuldbindingar sínar og hvernig gætt er ítrustu hagkvæmni í rekstri og öryggis og varkárni í fjárfestingum eins og markaðurinn leyfir á hverjum tíma, hlýt ég að vera bjartsýn á framtíð Þessa ágæta lífeyriskerfis sem við Íslendingar höfum borið gæfu til að koma okkur upp," segir Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.