Tryggingafræðileg staða samtryggingardeildar Lífeyrissjóðs verkfræðinga hefði verið neikvæð um 9,3% í árslok 2011 ef ekki hefði komið til 5% skerðing réttinda. Að teknu tilliti til þessarar skerðingar er staðan neikvæð um 6,8%. Samkvæmt lögum verður staðan að vera innan 10% á hverju einstöku ári og ef hún fer út fyrir 5% í fimm ár samfellt verður að grípa til aðgerða eins og réttindaskerðingar. Þessar kröfur voru rýmkaðar tímabundið með lögum árið 2009.

Lífeyrissjóður verkfræðinga kom mjög illa út úr bankahruninu og í árslok 2008 var tryggingafræðileg staða hans neikvæð um 16,8%. Síðan þá hefur verið unnið að því að jafna stöðu sjóðsins og var ákveðið að taka skerðinguna út í skrefum. Í ársreikningi sjóðsins segir að staða hans nú sé í samræmi við áætlun og að hann verði kominn í jafnvægi árið 2013.

Ef staða sjóðsins á að batna án skerðingar réttinda verður hann að ná meira en 3,5% raunávöxtun á ári. Í fyrra var raunávöxtun samtryggingardeildarinnar 1,1%. Að teknu tilliti til rekstrarkostnaðar var raunávöxtunin 0,9%. Árið 2010 var raunávöxtun sjóðsins neikvæð um 2,2%. Hrein eign til greiðslu lífeyris í samstæðu sjóðsins, þ.e. samtryggingar- og séreignardeilda, jókst um 4,6 milljarða króna milli ára og nam í árslok 2011 38,6 milljörðum króna.