„Ég segi allt ágætt, er bara á kafi í fundum og vitleysu,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri og einn eigenda DV. Aðalfundur verður haldinn hjá útgáfufélaginu í dag. Fram hefur komið að Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, kona hans, hafa keypt rúman 4% hlut í DV í gegnum einkahlutafélagið Laugar ehf og stefnir í að þau ásamt Þorsteini Guðnasyni, fyrrverandi stjórnarformanni DV, velti Reyni úr ritstjórastólnum. Framtíð Reynis skýrist því að loknum fundinum í dag.

Fram kom í Kastljósinu í gær að Gísli Guðmundsson , sem kenndur er við Bifreiðar og landbúnaðarvörur og faðir Ernu Gísladóttur, eiganda bílaumboðsins BL, hafi bjargað DV þegar fjárhagsstaða blaðsins var hvað verst.

Þorsteinn var stjórnarformaður DV þar til fyrr í mánuðinum þegar skipt var um formann, m.a. vegna deilna innan stjórnarinnar um kaup Þorsteins á hlut Lilju Skaftadóttur í félaginu.