Hagfræðideild Landsbankans bendir á að samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2012 voru skuldir ríkissjóðs um síðustu áramót um 1.952 milljarðar króna eða um 114% af landsframleiðslu. Skuldirnar skiptast þannig að 1.360 milljarðar króna eða 70% af heildarskuldum eru langtímaskuldir, 203 milljarðar króna eða 10% eru skammtímaskuldir og 388 milljarðar króna eða 20% eru lífeyrisskuldbindingar.

Hagfræðideildin bendir á að aðallega hefur verið rætt um sölu á eignarhlut ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka og nú í sumar sagði fjármálaráðherra að ætlunin væri alls ekki að selja neinn hlut í Landsbankanum

Hagfræðideildin bendir á að bókfærður eignarhlutur ríkisins í minni bönkunum tveimur nemi um 25 milljörðum króna sem einungis sé dropi í hafið miðað við 1.350 milljarða króna langtímaskuldir ríkisins. Um 30% eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum nemi hins vegar um 75 milljörðum króna. Með því að selja 30% í Landsbankanum og allan hlutinn í hinum bönkunum væri því verið að losa um 100 milljarða króna bókfærða eign ríkisins í fjármálastofnunum.

Söluandvirðið fyrir hlut ríkisins í bönkunum, sem hægt væri að selja, samsvarar einungis til um 7% langtímaskulda, en Hagfræðideildin segir að það sýni svart á hvítu hve alvarlegur skuldavandinn er.

Hér má lesa Hagsjá Landsbankans.