Opinber upplýsingagjöf um stöðu ríkisfjármála er iðulega óljós enda sjaldnast miðað við upphaflegar áætlanir, segir Viðskiptaráð í umfjöllun sinni um fjárlög næsta árs. Viðskiptaráð segir þingmenn á Alþingi þurfa að hafa erfiða stöðu ríkissjóðs í huga í vetur fyrir kosningarnar á næsta ári.

Í Skoðun Viðskiptaráðs segir m.a. að bætt staða hagkerfisins frá hruni skýrist einkum af þremur þáttum. Í fyrsta lagi setningu neyðarlaga sem kom í veg fyrir að óhóflegar byrðar féllu á ríkið. Í öðru lagi sérlega hagfelldra aðstæðna fyrir útflutningsgreinar sem viðheldur fjárfestingu, störfum og þar með skattgreiðslum. Í þriðja lagi aðhalds í ríkisfjármálum, í samræmi við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þá segir í Skoðun Viðskiptaráðs, að þrátt fyrir árangur síðustu ára liggi fyrir að umtalsverð frávik eru frá upphaflegum áætlunum um jöfnuð í ríkisrekstrinum. T.a.m. sé að finna helmingi meiri halla en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Að auki lá fyrir að upphafleg markmið um jákvæðan frumjöfnuði náðust ekki. Við bætist ákvörðun stjórnvalda í fyrrahaust að fresta markmiðum um heildarjöfnuð um eitt ár, fram til ársins 2014. Rökin þar að baki var betri staða ríkissjóðs en búist var við. Staðan nú bendir til að sú ákvörðun hafi verið ótímabær.

„Þá er ljóst að þó fjárlög næsta árs sýni betri stöðu nú en fyrir fjórum árum sé staða ríkissjóðs enn þung og ríkt tilefni til áframhaldandi aðhalds. Nýlegar fregnir af stöðu Íbúðalánasjóðs endurspegla vel hversu viðkvæmt ástandið er. Allt útlit er fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja a.m.k. 14 ma. í sjóðinn til viðbótar við 33 ma. árið 2010. Framlagið myndi bætast við áætlaðan halla þessa árs sem nemur um 25 mö. Ef markmið um sölu eigna uppá 7,6 ma. ná ekki fram að ganga má því ætla að halli ársins í ár nemi 47,8 mö. [...] Ekki bætir úr skák að hagvöxtur síðasta árs var lækkaður um 16% eftir endurskoðun Hagstofunnar sem eykur að öllu jöfnu á aðlögunarþörf ríkissjóðs,“ segir m.a. í Skoðun Viðskiptaráðs.