Saga undanfarinna ára hefur sýnt að munurinn á samþykktum fjárlögum og endanlegri niðurstöðu í ríkisreikningi er gífurlega mikill. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans, sem bendir jafnframt á að staða ríkissjóðs sé grafalvarleg.

Mikið hefur verið rætt um ríkisfjármál og meinta framúrkeyrslu nokkurra ríkisstofnana að undanförnu í kjölfar skýrslu um fjárreiður ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Í Hagsjá er bent á að ríkisreikningur fyrir árið 2013 sé ekki kominn en ljóst sé að þar stefni í verulegan halla á rekstri ríkisins.

Svo virðist sem innbyggður slaki sé sífellt til staðar í kerfinu og það virðist sem ófrávíkjanleg regla að útgjöld aukist frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Sá útgjaldaauki nemur 12% að meðaltali undanfarin 10 ár, að því er fram kemur í Hagsjánni. Samkvæmt greiningardeild Landsbankans er þörf á meiri festu, en einnig vandaðri áætlun. Áætlanir við fjárlagagerð séu oft ómarkvissar og ekki tekið tillit til fyrirsjáanlegra atriða.

Þá segir í Hagsjá: „Nú heyrast umvandanir stjórnmálamanna í garð stjórnenda ríkisstofnana um að þeir standi sig ekki og eigi að taka pokann sinn. Að sama skapi er hægt að halda því fram að forstöðumönnum sé að einhverju leyti erfitt að vinna innan ramma fjárlaga vegna vanáætlana sem allir ættu að þekkja.“