Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur staðfest útreikning spænsku ríkisstjórnarinnar á hallarekstri ríkissjóðs Spánar árið 2011. Ný ríkisstjórn Mariano Rajoy hélt því fram að hallinn hefði numið 8,5% af vergri landsframleiðslu í fyrra, en framkvæmdastjórn ESB fullyrti hins vegar að hallinn hefði aðeins verið 6% af VLF.

Grunaði menn í Brussel að Rajoy væri að reyna að ýkja hallann svo árangur hans sjálfs í efnahagsmálum liti betur út í samanburði. Rajoy vildi hins vegar meina að hann hefði fengið í arf mun verri stöðu og því væri ekki hægt að búast við þeim árangri í ríkisfjármálum sem ESB gerði ráð fyrir. Nú hefur Eurostat farið yfir ríkisreikninga Spánar frá því í fyrra og staðfest útreikninga spænsku stjórnarinnar. Staða ríkissjóðs er því verri en ESB hefur gert ráð fyrir hingað til.