líklegt er að Mitt Romney verði forsetaframbjóðandi repúblikana í Bandaríkjunum á næsta ári. Romney bar afgerandi sigur úr býtum í forkosningunum í New Hampshire á þriðjudag eftir að hafa unnið nauman sigur í Iowa í síðustu viku. Hann er þó ekki með tilnefninguna í vasanum ennþá því næst á dagskrá er Suður-Karólína, þar sem hófsami norðanmaðurinn Romney gæti átt erfitt uppdráttar.

Þegar 95% atkvæða höfðu verið talin í New Hampshire hafði Romney fengið um 39,4% atkvæða og næstur á eftir honum var Ron Paul með 22,8%. Jon Huntsman, sem hafði lagt höfuðáherslu á kosningarnar í New Hampshire, lenti í þriðja sæti með aðeins 16,8%. Rick Santorum, sem lenti í öðru sæti í Iowa, og gamli þingforsetinn Newt Gingrich voru í fjórða og fimmta sæti með um 9,4% atkvæða hvor. Texasbúinn Rick Perry lenti í sjötta sæti með aðeins 0,7% atkvæða.

Mikilvægur sigur fyrir Romney

Það skiptir máli fyrir Romney að hann fékk hærra hlutfall atkvæða í kosningunum í þessari viku en hann fékk í forkosningunum í New Hampshire fyrir fjórum árum, þegar hann fékk 32,2% og lenti í öðru sæti á eftir John McCain. Ef Romney ætlar að verða frambjóðandi flokksins verður hann að sannfæra kjósendur um að hann hafi nægilegan kjörþokka til að geta haft forsetaembættið af Barack Obama og Demókrataflokknum.