Velta tíu stærstu sjávarútvegstæknifyrirtækja landins jókst á liðnu ári og nam um 42 milljörðum króna. Inni í þeirri tölu er aðeins sú velta er tengist sjávarútvegi og fiskeldi.

Þetta er meðal þess sem sjá má í nýrri greiningu Sjávarklasans. Veltuaukningin var bæði tilkomin vegna sölu búnaðar sem og samruna við önnur fyrirtæki. Velta annarra fyrirtækja í geiranum, sem samkvæmt talningu Sjávarklasans eru 65, nam um 40 milljörðum og jókst um sjö prósent milli ára.

„Árið 2018 má því segja að sé fyrsta árið í sögunni þar sem sala tæknibúnaðar og annars búnaðar frá íslenskum fyrirtækjum, sem mest megnis er á erlenda markaði, er meiri en sem nemur sölu á þorskflökum frá Íslandi,“ segir í greiningunni. Staða margra fyrirtækja hafi aldrei verið betri en nú.

Framundan séu áskoranir sem meðal annars felist í að standast samkeppni í lausnum fyrir sjávarútveg og fiskeldi. Staða fyrirtækjanna sé sterk en erfitt sé að meta hvort endurnýjun á skipakosti í Rússlandi smitist til annarra landa.