Ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokk sem vænst er að taki við á morgun ætti að hafa 35 af 63 þingsætum á bak við sig, en eins og Viðskiptablaðið hafur fjallað um hafa tveir þingmenn VG lýst því yfir að mögulega muni þeir ekki styðja stjórnina.

Ef þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, sem greiddu atkvæði gegn því að fara í viðræður flokkanna þriggja, munu ekki styðja ríkisstjórnina verður þingstyrkur hennar 33 þingmenn á móti 30 stjórnarandstöðuþingmönnum.

Það gæti haft þau áhrif að Steingrímur J. yrði ekki kjörinn forseti Alþingis að því er Morgunblaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum, en óformlegt samkomulag er sagt vera um hann í embættið.

Flokksráð Vinstri grænna heldur fund sinn núna klukkan 17:00 og er áætlað að hann standi til 21:00, fundur flokksráðs Sjálfstæðisflokksins hófst klukkan 16:30 en framsóknarmenn funda svo klukkan 20:00 í kvöld.